Varðskipið Týr aðstoðar erlendan togara

  • NACGF_vardskip

Miðvikudagur 25. ágúst 2010

Varðskipið Týr kom um kl. 04:00 í nótt að erlendum togara þar sem hann var vélarvana um 490 sjómílur VSV af Reykjanesi. Lagði varðskipið úr höfn síðdegis á mánudag til aðstoðar togaranum sem er 60 metra langur.

Þegar varðskipið kom að togaranum í nótt var dráttarlínu skotið yfir og gekk aðgerðin vel. Hagstæð veðurskilyrði eru framundan og má því áætla að skipin verði komin í Faxaflóa á laugardag.

Leitar og björgunarsvæðið sem Landhelgisgæslan er ábyrg fyrir er samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum 1,8 milljónir ferkílómetrar að stærð og nær norður fyrir Jan Mayen í norðri, austur að 0°lengdarbaug í austri, austur og suður fyrir Færeyjar og þaðan að Hvarfi, syðst á Grænlandi og norður með austurströnd Grænlands.

EEZ_Ice_SRR_2008
Leitar- og björgunarsvæði Íslands er innan rauðu línunnar.