Bátur strandar við Raufarhöfn

Fimmtudagur 23. September 2010

Landhelgisgæslunni barst kl. 12:56 neyðarkall frá fiskibát með fjóra menn um borð, sem var strandaður um 1 sjómílu sunnan við Raufarhöfn, nánar tiltekið við Hólshöfða. Að sögn skipverja virtist báturinn ekki vera brotinn og urðu þeir ekki varir við leka um borð. Kallað var á aðstoð nærstaddra báta auk þess sem Gunnbjörg, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Raufarhöfn var kallað út.

Taug var komin á milli björgunarskipsins Gunnbjargar og bátsins kl. 13:33. Vegna bilunar í talstöð voru fjarskipti erfið á staðnum en varðstjórar Landhelgisgæslunnar báru skilaboð milli talstöðvar björgunarskipsins yfir í síma til bátsverja. Losnaði báturinn af strandstað kl.14:02. Smá leki var í vélarúmi bátsins en dælur virtust hafa undan. Var báturinn dreginn til hafnar á Raufarhöfn þar sem hann var kominn að bryggju kl. 14:25.