Þyrla Landhelgisgæslunnar fann bifreiðina í Kleifarvatni

Þriðjudagur 4. október 2010

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNA fann í gær bifreiðina sem leitað hafði verið að frá því um helgina. Fannst bifreiðin í Kleifarvatni, um 30 metra fjarlægð frá strönd og á ca. 5 metra dýpi.

Að sögn þyrluáhafnar hafði þyrlan þá leitað með hléum síðan á sunnudag í kringum Reykjavík, í Hvalfirði, Kjósaskarð, Grafningi, Jósefsdal, Heiðmörk og síðan að Kleifarvatni þar sem bifreiðin fannst. Sá áhöfnin ljósan blett í vatninu og var þá kallað á björgunarsveitina Þorbjörn, sem var á staðnum, til aðstoðar. Skömmu síðar kom bátur björgunarsveitarinnar á staðinn og staðfesti að um var að ræða bifreið í vatninu. Var þyrlunni þá lent og haft samband við lögreglu sem sendi kafara á vettvang.

Beið þyrlan á staðnum og flutti síðan lík mannsins sem var í bifreiðinni til Reykjavíkur í fylgd tveggja lögreglumanna.