Samningur undirritaður milli Landhelgisgæslunnar og Isavia

Fimmtudagur 14. október 2010

Þann 5. október sl. gaf dóms- og mannréttindaráðuneytið út reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara nr. 752/2010.

Reglugerðin er staðfesting á fyrirkomulagi sem gilt hefur um áratuga skeið um leit og björgun sjófarenda en nú er Landhelgisgæslan einnig að taka við leitar- og björgunarþættinum vegna loftfara.

Sameinuð sjóbjörgunar- og flugbjörgunarstjórnstöð Landhelgisgæslunnar heitir JRCC-Ísland, en Landhelgisgæslan starfrækir JRCC-Ísland frá stjórnstöð sinni ásamt Vaktstöð Siglinga, sameiginlegri fiskveiðieftirlitsstöð Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu auk fleiri verkefna. Í reglugerðinni er kveðið á um samstarf Landhelgisgæslunnar við aðra björgunaraðila í landinu vegna sjóbjörgunar og flugbjörgunar.

Í dag gerðu Landhelgisgæslan og Isavia ohf. samstarfssamning þar sem Isavia sér um flugleiðsöguþjónustu þar með talið viðbúnaðarþjónustu (alerting post) vegna loftfara og kemur boðum til Landhelgisgæslunnar þegar loftfar er í hættu statt eða þess er saknað. Isavia veitir Landhelgisgæslunni einnig þjálfun og ráðgjöf vegna leitar- og björgunarþjónustu við loftför. Landhelgisgæslan og Isavia eru samstarfsaðilar varðandi leitar- og björgunaræfingar innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins.

Isavia_undirskrOkt2010

Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur Landhelgisgæslunnar, Svanhildur Sverrisdóttir,
starfsmannastjóri Landhelgisgæslunnar, Helgi Björnsson, forstöðumaður rekstrarstofu, flugumferðarsviði Isavia, Halldór B. Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, Sigurleifur Kristjánsson, sérfræðingur flugumferðarsviði Isavia, Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs Isavia, og Egill Þórðarson, sérfræðingur, flugumferðarsviði Isavia.