Garðar Pálsson fyrrv. skipherra látinn

Garðar Pálsson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni, lést á Hrafnistu í Kópavogi sl. sunnudag, 21. nóvember, 88 ára að aldri. Hann fæddist á Ísafirði 22. mars 1922 og var sonur hjónanna Páls Hannessonar og Ástu Ingveldar Eyju Kristjánsdóttur. Eftirlifandi systkini hans eru Áróra, Hannes og Björn. Eftirlifandi eiginkona Garðars er Lilja Jónsdóttir. Dætur þeirra eru Ásta og Helga.

Garðar lauk námi frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði árið 1939, farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1947 og varðskipaprófi frá sama skóla 1953. Þá lauk hann sjóliðsforingjaprófi hjá bandarísku strandgæslunni árið 1961, O.C.S.-kennaraprófi í björgunarstörfum, fyrstu hjálp og stórslysahjálp frá Civilforsvarets Tekniske Skole, prófi í taktískum hernaði frá Civilforsvarets Höjskole í Danmörku og kennaraprófi frá Eldvarnaskóla Danska sjóhersins 1965.

Garðar hóf sjósókn sem háseti á mótorbátnum Hugin frá Ísafirði árið 1935. Hann var þriðji stýrimaður á vaðskipinu Óðni 1948 og fyrsti stýrimaður 1948-1949. Hann var fyrsti stýrimaður á varðskipinu Sæbjörgu 1950-1952 og skipherra og fyrsti stýrimaður á sama skipi 1952. Fram til 1960-1961 gegndi hann stöðu skipherra eða fyrsta stýrimanns á ýmsum skipum Landhelgisgæslunnar en tók þá við sem skipherra á gæsluflugvélinni TF-Rán og síðar ýmsum öðrum flugkostum Gæslunnar. Síðar gegndi hann ýmsum eftirlitsstörfum fyrir Landhelgisgæsluna.

Heimild mbl.is 24. nóvember 2010.