Útför Garðars Pálssonar
Miðvikudagur 1. desember 2010
Garðar Pálsson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni, var borinn til grafar í gær og samkvæmt venju fylgdi honum heiðursvörður landhelgisgæslumanna. Hann starfaði hjá Landhelgisgæslunni frá árinu 1948.
Garðar hóf störf hjá Landhelgisgæslunni árið 1948 og varð skipherra árið 1952. Hann lést í Reykjavík 21. nóvember síðastliðinn 88 ára að aldri. Útförin fór fram í Neskirkju í Reykjavík. Sr. Örn Bárður Jónsson jarðsöng.
Garðar Pálsson var þriðji stýrimaður á varðskipinu Óðni 1948 og fyrsti stýrimaður 1948-1949. Hann var fyrsti stýrimaður á varðskipinu Sæbjörgu 1950-1952 og skipherra og fyrsti stýrimaður á sama skipi 1952. Fram til 1960-1961 gegndi hann stöðu skipherra eða fyrsta stýrimanns á ýmsum skipum Landhelgisgæslunnar en tók þá við sem skipherra á gæsluflugvélinni TF-Rán og síðar ýmsum öðrum flugkostum Gæslunnar. Síðar gegndi hann ýmsum eftirlitsstörfum fyrir Landhelgisgæsluna.
Myndir Árni Sæberg.