Undirritaður samningur vegna varahluta fyrir þyrlur LHG. Hefur mikla hagræðingu í för með sér.

Fimmtudagur 9. desember 2010

Nýverið var undirritaður viðamikill viðhaldssamningur milli Landhelgisgæslunnar og Heli One í Noregi er varðar varahluti fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar, Líf og Gná sem báðar eru af tegundinni Aerospatiale Super Puma. Samningurinn mun hafa í för með sér mikla hagræðingu fyrir Landhelgisgæsluna en hann kveður á um að Heli One útvegar Landhelgisgæslunni alla varahluti í báðar þyrlurnar gegn föstu flugtímagjaldi og tryggir jafnframt að varahlutir séu til staðar fyrir allt skipulagt viðhald auk þess að tryggja varahluti innan 48 stunda ef um óvænt atvik eða bilanir er að ræða.

Styrkir samningurinn þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar með styttri biðtíma eftir varahlutum sem leiðir af sér styttri viðhaldstíma og betri viðbragðsgetu á þyrlunum. Auk þess er um fjárhagslega hagræðingu að ræða. Í fyrsta lagi verða heildarútgjöld vegna varahluta lægri yfir samningstímann og í öðru lagi minnka sveiflur í rekstri vegna dýrra varahlutakaupa þar sem greitt er fyrir notkun og slit jafnóðum.

Landhelgisgæslunni tókst að ná fram mjög hagstæðum kjörum þar sem samningurinn er fyrir tvær þyrlur sömu tegundar. Gná var með sambærilegan samning fyrir, sem var umtalsvert dýrari. Með hagræðingu sem skapast af því að segja upp fyrri samningi var svigrúm til að gera sambærilegan samning vegna Lífar.  Viðhaldssamning vegna Lífar hefur í raun vantað síðan þyrlan kom í rekstur Landhelgisgæslunnar árið 1995 og er því um mjög stórt skref er að ræða.

Flugtaeknideild_DSC0822