Þyrlubjörgunarþjónustan í Færeyjum heimsækir LHG

Fulltrúar þyrlubjörgunarþjónustu færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, heimsóttu flugdeild Landhelgisgæslunnar um helgina og kynntu sér ýmsan búnað og aðferðir þyrluáhafna Landhelgisgæslunnar. Atlantic Airways áætlar að hefja notkun nætursjónauka og höfðu þeir því sérstakan áhuga á þjálfunarmálum, reynslu og þekkingu þyrluáhafna Landhelgisgæslunna á því sviði.

Atlantic Airways er með tvær BELL 412HP þyrlur í rekstri og eru 10 þyrluflugmenn á sólarhringsvöktum sem sinna verkefnum á sviði leitar og björgunar, sjúkraflugs, fiskveiðieftirlits auk almennrar þyrluflugþjónustu í Færeyjum.

Í mars á sl. ári var sameiginleg æfing varðskips Landhelgisgæslunnar og þyrlubjörgunarþjónustunnar í Færeyjum þar sem  áhöfn varðskipsins Ægis æfði sjóbjörgun með þyrlu Atlantic Airways OY-HSR. Fyrr um daginn komu  stjórnendur frá Atlantic Airways um borð í varðskipið Ægi, skoðuðu skipið og kynntu sér aðstæður. Þá fengu gestirnir einnig upplýsingar um hvernig staðið er að æfingum og hífingum með þyrlum Landhelgisgæslunnar.