Varðskip á loðnumiðum

  • AegirIMGP0489

Varðskipið ÆGIR var dagana 16. til 18. janúar statt á loðnumiðunum u.þ.b. 80 sjómílur ANA-af Glettinganesi. Þar var aðallega verið að fylgjast með norskum loðnuskipum en samkvæmt samningi þar um, mega norsk skip veiða 27.171 tonn af loðnu innan íslenskrar lögsögu árið 2011 og hafa þeir nú tilkynnt afla upp á rúm tíu þúsund tonn en veiðin hefur verið frekar treg og bræla á miðunum. Norsk skip hafa fengið afgreidd 78 veiðileyfi en 30 skip fá 900tn kvóta hvert. Samtals hafa 15 skip komið til veiða og þar af eru 9 skip farin heim með afla. Eitt grænlenskt loðnuskip, Erika/OWHM,  hefur fengið veiðileyfi og er leyfilegur afli  þess 11.926tn, er það nú í sinni fyrstu veiðiferð. Leyfilegur afli færeyskra loðnuskipa er 10.000tn, ekki hefur  enn verið veitt úr þessum kvóta. 

Fóru varðskipsmenn til eftirlits um borð í fjögur skip áður en þeim var hleypt til síns heima í Noregi. Þetta voru skipin GUNNAR LANGVA, HARGUN, TALBOR og STRAND SENIOR. Norsku skipunum er óheimil notkun annara veiðarfæra en hringnótar og er þeim skylt að tilkynna ferðir sínar og aflabrögð eftir reglum sem að veiðunum lúta. Við skoðanir um borð er gengið úr skugga um að allt sé eftir settum reglum og lestir skoðaðar til að átta sig á umfangi aflans.Lengdardreifing loðnunnar var ágæt en hrognafylling skammt á veg komin. Afli norsku skipanna fer til bræðslu, yfirleitt í Álasundi í Noregi. Eitt norskt skip landaði á Eskifirði og fékk viðgerð á nót áður en farið var aftur til veiða og kvótinn kláraður.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir, teknar af Guðmundi St. Valdimarssyni bátsmanni.