Sjómaður féll útbyrðis af nótaveiðiskipi

  • HIFR_afing_med_TF_LIF_04032010_(1)

Sunnudagur 27. febrúar 2011

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 21:05 í gærkvöldi aðstoðarbeiðni frá grænlensku nótaveiðiskipi sem statt var um 16 sml S af Malarrifi. Hafði skipverji fallið fyrir borð en tekist hafði að ná honum um borð að nýju. Óskað var eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi koma til aðstoðar.

TF-LÍF var við æfingar á Breiðafirði með varðskipinu Tý og hélt hún strax að skipinu. Varðskipið hélt einnig á staðinn til að vera til taks ef á þyrfti að halda. Einnig var ákveðið að TF-GNÁ færi frá Reykjavík með lækni þar sem ekki var læknir í áhöfn TF-LÍF.  TF-GNÁ er auk þess með hraðvirkara spil sem kemur sér vel þegar unnið er að björgun í slæmum veðrum á sjó.  

Þegar TF-LÍF kom að skipinu Kl. 21:26 var ítrekað reynt að koma sigmanni þyrlunnar um borð í skipið en vegna veðurs og sjólags þurfti þyrlan frá að hverfa kl. 21:40. TF-GNÁ fór í loftið frá Reykjavík kl. 21:31 og kom að skipinu kl.21:52. Sigmanni, lækni og sjúkrabörum var slakað um borð í skipið og var maðurinn úrskurðaður látinn af lækni um klukkustund síðar.

Á svæðinu var él og þungur sjór í SV, vindur 35-45 hnútar (18-24 m/sek). Að sögn þyrluáhafnar voru aðstæður til hífinga mjög erfiðar og munaði mestu um hversu hraðvirkt spil er í TF-GNÁ. Lentu þyrlurnar í Reykjavík um miðnættið.