Varnaræfingin Norður Víkingur haldin í júní

Varnaræfingin Norður Víkingur 2011 verður haldin dagana 3. – 10. júní 2011.  Æfingin er haldin í samræmi við samkomulag um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006.  

Æfðir verða m.a. liðsflutningar til og frá landinu með áherslur á varnaræfingar í lofti. Einnig verður talsvert umfang vegna verkefna á sjó og samþættingu þeirra við verkefni lofti,  með vísan til aukins mikilvægis norðurslóða.  Í þessu sambandi verður reynt að hafa verkefnin sem raunverulegust.  Önnur verkefni verða m.a. samþætting liðsafla og fjölþjóðleg aðgerðarstjórnun ásamt gistiríkjastuðningi sem felst í að koma hópnum fyrir og annast hann meðan á verkefninu stendur.

Varnaræfingin Norður Víkingur hefur verið haldin reglulega hér á landi frá árinu 1991.  Fyrsta æfingin samkvæmt samkomulaginu frá 2006 var haldin 2007 og síðan aftur 2008.  Samanber samkomulag þjóðanna frá 2006 var ráðgert að halda Norður Víking árlega.  Aðilar eru nú sammála um að halda verkefnið annað hvert ár.  Í ár er æfingin á ábyrgð Bandaríska flughersins í Evrópu USAFE, en 2008 var það Bandaríski sjóherinn í Evrópu sem bar ábyrgð á verkefninu.  Framkvæmdin hér á landi er í umsjón Landhelgisgæslunnar f.h. utanríkisráðuneytisins.  Að auki koma að verkefninu hérlendis m.a. Ríkislögreglustjóri, Geislavarnir ríkisins og ISAVIA.   Flugsveitir frá Bandaríkjunum, Noregi og Ítalíu taka í ár þátt í æfingunni ásamt tveimur dönskum og einu norsku varðskipi auk danskrar björgunarþyrlu. Á þeim tíma sem varnaræfingin fer fram verða u.þ.b. 450 liðsmenn þátttökuþjóðanna við störf, auk starfsmanna Landhelgisgæslunnar og annarra er að verkefninu koma. Þá verða staðsettar á Keflavíkurflugvelli 16 orrustuþotur, 3 eldsneytisflugvélar og 2 sérhæfðar fjarskiptaflugvélar. 

Samhliða Norður Víkingi 2011 verður hér á landi regluleg loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins í samræmi við ákvörðun þess og íslenskra stjórnvalda frá árinu 2007.  Norsk flugsveit annast loftrýmisgæsluna að þessu sinni og fer hún fram á tímabilinu frá 27. maí – 17. júní.

Kostnaðaráætlun fyrir Norður Víking 2011 er að upphæð kr. 36 mkr en vegna minnkaðs umfangs er nú gert ráð fyrir að kostnaður verði sambærilegur eða minni en árið 2008, þá var hann 29 mkr.  Öll útgjöld eins og áður fara til þjónustufyrirtækja hér á landi. 

Þar sem loftrýmisgæsla NATO með framlagi Norska flughersins fer fram á sama tíma er vonast til að ná fram hagræðingu sem mun skila sér í lækkuðum útgjöldum.  Önnur útgjöld sem þjóðirnar greiða geta numið allt að tíföldu framlagi íslenska ríkisins og er þá ekki m.t. kostnaður við varðskipin þrjú sem þátt taka í verkefninu. 

Umfang Norður Víkings 2007, 2008 og 2011
 

2007 2008 2011
Bandaríkin, Danmörk,
Noregur
Bandaríkin, Danmörk,
Noregur, Kanada
Bandaríkin, Danmörk,
Ítalía, Noregur
4 dagar 5 dagar 5 dagar + 3 í undirbúning
300 manns 450 manns 450 manns
5 orrustuþotur 15 orrustuþotur 16 orrustuþotur
2 E-3 eftirlitsvélar 2 E-3 eftirlitsvélar 0 E-3 eftirlitsvélar
2 eldsneytisvélar 3 eldsneytisvélar 3 eldsneytisvélar
2 fjarskiptaflugvélar 3 fjarskiptaflugvélar 2 fjarskiptaflugvélar
1 kafbátaleitarvél 2 kafbátaleitarvél 0 kafbátaleitarvél
1 þyrla 0 þyrla 1 þyrla
1 varðskip 1 varðskip 3 varðskip