Sprengjusveit við ýmis verkefni á Austurlandi

  • hlutur

Fimmtudagur 1. september 2011

Landhelgisgæslunni barst í sl. viku tilkynning frá lögreglunni á Egilsstöðum  um grunsamlegan hlut sem fannst á Héraðssandi. Talið var að um væri að ræða tundurdufl,  þar sem mikið hefur verið af þeim á þessu svæði í gegnum tíðina. M.a. var þremur duflum eytt af þessu svæði í fyrra.  Þegar sprengjusveit Landhelgisgæslunnar kom á staðinn og hafði grafið upp hlutinn kom í ljós að ekki var um að ræða tundurdufl heldur var þetta einhverskonar flotbauja sem að sögn sérfræðinga sprengjusveitar gæti hafa verið notuð í rússneskar tundurduflagirðingar. Baujan var svo opnuð með sprengiefni til að ganga um skugga um að hún væri tóm og engin hætta stafaði  af henni.  Að því loknu fundust þrjú tundurdufl á svæðinu, voru þau grafin upp úr sandinu. Reyndust þau öll vera án sprengiefnahleðslu.

 Ekki var verkefnum þeirra þá lokið á Austurlandi því þegar sprengjusveitin var á leið til Reykjavíkur, yfir Öxi, tóku þeir eftir tveimur vírum sem stóðu upp úr gamalli borholu í bergi rétt áður en komið var að Innri Víná.  Voru vírarnir staðsettir u.þ.b. tvo metra frá veginum.  Var lögreglan á Egilsstöðum kölluð til og lokaði hún veginum á meðan sprengjusérfræðingar LHG sprengdu holuna og grjótið var hreinsað af veginum. Tengdist borholan framkvæmdum sem áttu sér stað á svæðinu fyrir nokkrum árum þegar nýr vegur var lagður yfir Öxi.

hlutur-(2)
Flotbaujan í sandinum.

hlutur
Flotbaujan þegar hún hafði verið grafin upp

IMG_2701
Flotbaujan hættulaus
tundurdufl
Tundurdufl grafið upp

IMG_2714
Vírar í berginu við veginn um Öxi