Til hamingju með daginn! Þór kominn til Íslands

  • Vardskipid-thor

Miðvikudagur 26. október 2011

Þór, nýtt varðskip Íslendinga lagði að bryggju í Vestmannaeyjum kl. 14:00 í dag við minnismerkið - Skrúfuna fyrir fyrsta varðskipið Þór, sem upphaflega var keypt af Björgunarfélagi Vestmannaeyja 26. mars árið 1920 til björgunarstarfa við Vestmannaeyjar. Skipið varð síðar eða árið 1926 upphafið að stofnun Landhelgisgæslunnar.

Fjöldi fólks var samankominn á Friðarbryggju þegar glæsilegt varðskipið sigldi inn höfnina. Þyrlur Landhelgisgæslunnar  TF-LÍF og TF-GNÁ sveimuðu yfir meðan varðskipið sigldi inn. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar festi landfestar og gekk svo um borð.  Eyjamenn tóku vel á móti nýja skipinu, bæjarbúar fjölmenntu á bryggjuna og skotið var úr fallbyssu á Skansinum, gamla varnarvirkinu í Eyjum þegar Þór sigldi inn innsiglinguna.

Björgunarfélagið í  Vestmannaeyjum liðsinnti Landhelgisgæslunni með ýmsum hætti við komuna og fylgdi Þór, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nafna sínum til hafnar. Einnig sigldi lóðsinn í Eyjum til móts við varðskipið og sprautaði viðhafnarúða yfir varðskipið Þór áður en siglt var inn í höfnina.

Við komuna bárust varðskipinu fjölmargar veglegar gjafir, m.a. frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja, Bæjarstjórninni, Kvenfélagi björgunarfélagsins Eykyndils, Ísfélaginu og fleirum.

Þór kemur til Reykjavíkur á morgun, fimmtudag og verður tekið á móti varðskipinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar kl. 14:00. Verður varðskipið opið til sýnis frá kl. 14:30 til 17:00 og eru allir velkomnir um borð.

Þór verður einnig til sýnis á Miðbakka föstudag, laugardag og sunnudag kl. 13:00-17:00. Varðskipið  mun koma víða við um landið á næstu mánuðum þar sem skipið verður til sýnis fyrir alla áhugasama.

Hér eru ýmsar upplýsingar um varðskipið.

_MG_1135
Þór siglir inn í höfnina, TF-LÍF sveimar yfir varðskipinu

Þór kemur til Eyja
Lóðsinn viðhafnarúðar yfir Þór, nafni hans, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fylgir.

Þór kemur til Eyja
Þór siglir inn í Friðarhöfn

Þór kemur til Eyja Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum afhenti varðskipinu veglega gjöf.

Þór kemur til Eyja
Björgunarfélagið í Vestmannaeyjum afhenti forstjóra Landhelgisgæslunnar
og skipherra Þórs veglega gjöf  m.a. innrömmuð hlutabréf sem til sölu voru til að fjármagna kaupin á Þór hinum fyrsta.

Þór kemur til Eyja
Fjöldi gesta komu um borð til að skoða hið glæsilega varðskip

Þór kemur til Eyja
Mikið rými er á dekkinu fyrir ýmsan búnað.


Thor_VMeyjar8
Þór í Friðarhöfn.