Skipin komu til Fáskrúðsfjarðar kl. 03:26

  • IMG_5481_2

6. nóvember 2011

Togarinn Hoffell dró flutningaskipið Ölmu til hafnar á Fáskrúðsfirði í nótt og lögðust skipin að bryggju klukkan 3.26. Hafnsögubáturinn Vöttur frá Reyðarfirði var á Fáskrúðsfirði var þeim til aðstoðar.

Hér fyrir neðan má sjá tímalínu björgunaraðgerðarinnar sem er unnin upp úr stöðuskýrslu stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.

Laugardagur, kl. 02.00

Dráttarbáturinn Björn Lóðs ýtir Ölmu frá höfninni við Höfn í Hornafirði.

Kl. 03.02

Landhelgisgæslunni barst aðstoðarbeiðni frá Birni Lóðs vegna flutningaskipsins Ölmu sem er með óvirkt stýri en vél og skrúfu í lagi. Landhelgisgæslan hefur samband
við Ingibjörgu, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hornafirði og togskipið Hoffell sem staðsett er um 6 sjómílur suðaustur af staðnum. Einnig haft samband við höfnina á Reyðarfirði um að fá dráttarbátinn Vött á staðinn og er Lóðs-
inn, dráttarbáturinn í Vestmannaeyjum settur í viðbragðsstöðu. Varðskipið Þór kallað út.

05112011270
Úr stjórnstöð LHG

Kl. 3.30

Haffell komið að Ölmu.

Kl. 04.30

Dráttartaug komin milli Ölmu og Hoffells. Hoffell dregur flutningaskipið austur fyrir Stokksnes vegna suðvestanáttar á svæðinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF,
staðsett á Höfn í Hornafirði og til aðstoðar ef á þarf að halda. Veður tekið að versna, vindur suðvestan 20 m/sek.

Kl. 07.55

Dráttartaug slitnar milli Hoffells og Ölmu. Skipin eru þá stödd um 6 sjómílur austur af Stokknesi.

Kl. 10.07

Vöttur frá Reyðarfirði snýr til baka vegna slæms veðurs.

Kl. 11.00

Ákveðið að Gæslan komi manni yfir í Ölmu til að liðka fyrir samskiptum. Túlkur kemur til starfa í stjórnstöð.

Kl. 14.29

Varðskipið Þór siglir frá Reykjavík.

Kl. 14.45

Dráttartug komið milli Hoffells og Ölmu á ný.

Kl. 16.55

Varðskipið Ægir heldur úr Reykjavíkurhöfn austur.

Kl. 17.00

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, flytur stýrimann frá Landhelgisgæslunni um borð í flutningaskipið. Veður sunnan 20-25 hnútar, um 13 m/sek. og ölduhæð um 3 metrar, skyggni ágætt. TF-LÍF á Reyðarfirði.

Mynd0398
Þyrla LHG flytur stýrimann um borð í Ölmu

Kl. 20.26

Samband haft við Hoffell, sigling gengur þokkalega en eru að hugsa um að fara til Fáskrúðsfjarðar í stað Reyðarfjarðar, styttri sigling og öruggari í ljósi veðurspár.

Kl. 21.09

Haft samband við Vött um að vera til aðstoðar.

Sunnudagur, kl. 00.24

Haft samband við skipherra á Ægi og þeim snúið til baka til Reykjavíkur.

Kl. 03.26

Staðfest að Alma sé komin að bryggju á Fáskrúðsfirði.

Kl. 03.58

Alma kallar í Hoffell og þakkar fyrir aðgerðina. Hofell þakkar Gæslunni fyrir hennar þátt.