Enginn lét lífið á sjó árið 2011

  • Mannbjörg á Faxaflóa

Miðvikudagur 4. janúar 2011

Enginn íslenskur sjómaður fórst í sjóslysi við Ísland á árinu 2011 sem eru gleðileg tíðindi fyrir Landhelgisgæsluna og alla þá sem koma að sjóbjörgunarmálum á Íslandi. Þeirra á meðal eru varðstjórar Landhelgisgæslunnar innan stjórnstöðvar/vaktstöðvar siglinga, sem eru á vakt allan sólarhringinn árið um kring og fylgjast með umferð skipa og báta innan hafsvæðisins. Þeir vakta merki frá öryggisbúnaði skipa og kalla út björgunareiningar ef óhöpp verða. Þetta er í annað sinn sem slíkt gerist svo vitað sé, en árið 2008 lét enginn íslenskur sjómaður lífið til sjávar. Þó varð eitt banaslys á íslensku hafsvæði á árinu, á grænlenska nótaveiðiskipinu, Eriku, þegar skipverji fór fyrir fyrir borð og drukknaði.

Skalva13jan11-147
Björgunarflug á árinu 2011

Margir samverkandi þættir hafa vafalaust áhrif á þessa fækkun sjóslysa, menntun sjómanna, betri búnaður, t.d. ferilvöktunar- og öryggisbúnaður sem verður sífellt þróaðri, skipakostur hefur batnað, námskeið Slysavarnarskóla sjómanna og fleira. Þyrla Landhelgisgæslunnar kemur einmitt að grunnnámskeiði skólans og eru sjómenn þar m.a. þjálfaðir í móttöku og björgun með þyrlu. Nú er útgerðum gert skylt að lögskrá skipverja á öll skip sem gerð eru út í atvinnuskyni þannig að betri vitneskja er aðgengileg um hverjir eru um borð í nær öllum skipum. Fjölgun þeirra sem verða að sækja Slysavarnaskólann má m.a. rekja til gildistöku öryggisfræðsluskyldu til handa sjómönnum á smábátum. Skv. lögum er sjómönnum sem hafa verið lögskráðir á skip lengur en 180 daga gert skylt að sækja slysavarnarnámskeið sjómanna og er ekki hægt að lögskrá þá án þess.

HIFR_afing_med_TF_LIF_04032010_(11)
Æfing með þyrlu LHG

Sú breyting átti sér stað um áramótin 2011-2012 að lögð var niður vöktun á sendingum Racal tækja (gamla kerfið) í STK – sjálfvirku tilkynningarskyldunni. Samkvæmt  reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa nr. 672/2006 átti eftir orðanna hljóðan að skipta út Racal tækjum fyrir AIS tæki  í skipum og bátum með haffæri á hafsvæði A1 strax um áramótin 2010 / 2011. Af hagkvæmnisástæðum var miðað við að skipti færu fram í síðasta lagi við búnaðarskoðun á árinu 2011.

_IB_6324
Frá stjórnstöð LHG

Nú eiga öll skip og bátar að hafa farið í gegnum búnaðarskoðun og tækjaskipti eiga að hafa farið fram. Hefst nú vinna við niðurtekt á landstöðvum og slökkt verður á miðlægum búnaði. Tvö kerfi þjóna nú skipum/bátum á hafsvæði A1,  sjálfvirkt auðkennikerfi skipa AIS og fjarskiptakerfi með stafrænu valkalli DSC. Bæði kerfin eru alþjóðleg, þ.e. samþykkt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (á ensku: IMO sem stendur fyrir International Maritime Organization), ólíkt því sem gilti um Racal búnaðinn.