Leki kom að bát út af Rittá

  • _IB_6324

Fimmtudagur 12. janúar 2012

Landhelgisgæslunni barst kl. 05:08 í morgun aðstoðarbeiðni á rás 16 frá bát með tvo menn um borð, sem staddur var út af Rittá, nærri Grænuhlíð. Komið hafði upp leki í vélarrúmi og unnu mennirnir að því að dæla handvirkt úr bátnum. Haft var samband við nærstadda báta og þeir beðnir um að halda á vettvang auk þess sem björgunarskip Landsbjargar á Ísafirði, Gunnar-Friðriksson var kallað út.  Óskað var eftir að áhöfnin klæddist til öryggis flotgöllum.

Nærstaddir bátar, Gunnar-Leós og Blossi voru komnir á staðinn um kl. 05:55.  Gunnar-Leós tók þá bátinn í tog til móts við björgunarskipið Gunnar Friðriksson sem var kominn að bátnum kl. 06:32. Fóru tveir menn um borð með dælur og luku þeir dælingu um kl 07:05 og var hættuástandi aflýst. Voru bátarnir komnir til hafnar á Ísafirði um kl. 08:30.

Mynd úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga.