Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar með kynningu á móti norrænna jarðfræðinga

  • Baldur-2

Sunnudagur 15. janúar 2012

Sjómælingasvið, í samstarfi við Orkustofnun, tók í vikunni þátt í 30. vetrarmóti norrænna jarðfræðinga (http://www.jfi.is/ngw_2012) sem haldið var í Hörpu.  
Birt voru tvö plaköt sem sýna dýptarmælingar og hafsbotnsmyndir af Hvalfirði annars vegar og Kollafirði hins vegar og fjalla um samanburð á eldri og nýrri dýptarmælingum á svæðunum, með tilliti til efnistöku.  Orkustofnun birti svo þriðja plakatið um sama efni er snéri beint að efnistökunni sjálfri og samsetningu efnisins.

Fyrir Hvalfjörð eru til eingeisla- (e. singlebeam) bergmálsdýptarmælingar sem breski sjóherinn mældi árið 1940 og fjölgeislamælingar (e. multibeam) sem mældar voru af Sjómælingasviði LHG, á sjómælingabátnum Baldri árið 2010, fyrir Orkustofnun. Sjá plakat.

Kollafjörður var mældur með fjölgeislamæli af Sjómælingasviði LHG árið 2002 í kjölfar breytinga á dýpi í Engeyjarsundi, innsiglingunni til Reykjavíkur. Á hafsbotnslíkani sem unnið var úr þeim mælingum eru efnistökusvæði vel greinanleg. Gerð er grein fyrir kortagerð af svæðinu og þeim breytingum sem urðu á milli útgáfa af sjókorti nr. 362 (INT 1113) Reykjavík árið 1996 og nýrri útgáfu frá árinu 2009.

Mynd af Baldri sjómælingaskipi LHG. JPA