Neyðarkall barst frá íslensku togskipi við Noreg

  • _IB_6324

Miðvikudagur 25. janúar 2012 kl. 19:30

Landhelgisgæslunni barst kl. 13:14 neyðarkall frá íslensku togskipi með fjóra menn um borð sem var staðsett innan norskrar lögsögu eða 150 sml NV af Álasundi í Noregi. Á sama tíma hvarf skipið úr ferilvöktunarkerfum. Var samstundis haft samband við norsku björgunarmiðstöðina í Bodö sem einnig fékk neyðarskeytið. Voru samstundis sendar tvær norskar Sea King björgunarþyrlur til leitar á svæðinu auk þess sem var haft samband við nærstaddan loðnubát  sem þar var að veiðum. Einnig er Orion eftirlits- og leitarflugvél frá Tromsö væntanleg á leitarsvæðið kl. 17:50.

Kl. 17:15 barst Landhelgisgæslunni tilkynning um að björgunarþyrla hafi bjargað einum manni úr sjónum en þriggja manna er enn saknað. Verður maðurinn fluttur á sjúkrahús í Álasundi. Þriggja manna er enn saknað.Á svæðinu fannst brak sem leiðir líkum að því að skipið hafi sokkið.

Staðsetning skipsins var innan norskrar leitar- og björgunarlögsögu og bera þeir því ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum.

Á svæðinu er sunnan stormur með 10-15 metra ölduhæð.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarmiðstöðinni í Noregi getur Orion eftirlits- og leitarflugvélin verið á svæðinu til miðnættis en á meðal búnaðar hennar er radar- og hitamyndavél.

kl. 19:30 Hafði lögreglan náð sambandi við aðstandendur mannanna fjögurra.

Nafn skipsins er Hallgrímur SI-77.  

Aðstandendum mannanna er bent á aðstoð í hjálparsíma Rauða krossins 1717, einnig er opið hús í kvöld á Landsskrifstofu Rauða krossins við Efstaleiti 9.