LHG tekur þátt í nýsköpunarverkefni OK Hull

  • OKHullbatur7

Fimmtudagur 15. mars 2012

Íslenska fyrirtækið OK Hull afhenti nýverið séraðgerða- og sprengjueyðingasviði Landhelgisgæslunnar átta metra harðbotna slöngubát sem er frumgerð (prótótýpa) og verður prófaður við ýmsar aðstæður á næstu mánuðum.

OKHullbatur1

OK Hull hefur síðan 2005 unnið að þróun á nýju skrokklagi sem sótt hefur verið um einkaleyfi á. Hönnun báta OK Hull byggir á þessu skrokklagi sem bæði sparar eldsneyti, heggur ölduna mun minna og hefur almennt mýkri hreyfingar en bátar sem áður hafa verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni. OK Hull skrokklagið hefur einnig þann kost að rými um borð er meira og nýtist betur en á bátum sömu lengdar. Um er að ræða skrokk sem notar minni orku og nær meiri hraða við erfiðar aðstæður en áður hefur þekkst.

OKHullbatur2

Báturinn sem Landhelgisgæslan hefur til afnota er ætlaður til björgunar- og löggæslustarfa.  Um er að ræða spennandi verkefni fyrir Landhelgisgæslunnar að taka þátt í íslensku nýsköpunarverkefni og miðla af áralangri reynslu starfsmanna Landhelgisgæslunnar við notkun báta í eftirlits-, löggæslu- , leitar- og björgunarverkefnum.

OK Hull afhenti Landhelgisgæslunni bátinn í síðastliðinni viku til prófanna. Að sögn stjórnenda reyndist báturinn í heildina litið vel í mjög erfiðum aðstæðum. Eins og gera má ráð fyrir með frumgerð er verkið í þróun og verða tillögur Landhelgisgæslunnar teknar með í framleiðsluferlinu.

OKHullbatur6

Þróunar- og hönnunarferli OK Hull hefur staðið yfir frá árinu 2005 og sótt hefur verið um einkaleyfi á hönnuninni á skrokklaginu sem mun nýtast öllum tegundum báta og skipa,  hvort sem um ræðir skemmtibáta, vinnubáta, varðskip, skip til fiskveiða eða ferjuflutninga. Um er að ræða íslenska nýsköpun og mun fyrirtækið nú í ár kynna sex útgáfur fullbúinna báta á markaðinn, þ.e. þrjár útgáfur af 6 metra fjölnotabát, tvær útgáfur af 10 metra harðbotna slöngubát og 15 metra snekkju sem ætluð er til lengri og skemmri skemmti- og könnunarferða. Aðrar stærðir og tegundir eru á teikniborðinu og munu verða kynntar í náinni framtíð.

OKHullbatur7

OK Hull hefur vaxið hratt og starfa nú 35 manns hjá fyrirtækinu við hönnun, prófanir, smíði og framleiðslu. Gert er ráð fyrir að 50 manns verði þar við störf í árslok 2012.  OK Hull er staðsett í 2400 fm húsnæði við Vesturvör í Kópavogi og á næstu mánuðum verður tekin í notkun 4500 fm bygging á sama stað. Ennfremur áætlar fyrirtækið byggingu 6000 fm húsnæðis sem mun í framtíðinni hýsa stærstan hluta starfseminnar.