Hverfa þurfti frá æfingu vegna stöðurafmagns

  • Stodurafmagn

Fimmtudagur 22. mars 2012

Óvenjumikið stöðurafmagn myndaðist nýverið þegar þyrla Landhelgisgæslunnar var við æfingar á ytri höfn Reykjavíkur í röku lofti og hundslappadrífu. Afar sjaldgæft er að svo mikið stöðurafmagn myndist en það  þekkist þó í ákveðnum veðurfarslegum skilyrðum þrátt fyrir jarðtengivír sem notaður er til varnar þessum aðstæðum. Ákveðið var að hverfa um sinn frá æfingunni, sem var með Slysavarnaskóla sjómanna. Að sjálfsögðu sakaði engan og engin hætta var á ferðum þrátt fyrir að óþægilegt sé að fá í sig stöðurafmagnið.

Náðist myndskeið af því þegar um eins meters blossi kom í jarðtengivír þyrlunnar sem hangir neðan úr króknum. Sigmaður þyrlunnar hangir í vírnum sem á  að sjá til þess að hleypa stöðurafmagninu úr vélinni til jarðar. Í þessum aðstæðum var spennan orðin svo mikil að jarðtengivírinn dugði ekki að öllu leyti og fékk sigmaðurinn í gegnum sig straum, einnig fundu aðrir áhafnameðlimir fyrir þessu t.d. spilmaðurinn sem hélt um spilvírinn.

 Sjá myndskeið. Blossinn sést á sekúndubroti snemma í myndskeiðinu.

Stodurafmagn