Árangursríkt eftirlit Ægis
Föstudagur 30. mars 2012
Varðskipið Ægir hefur að undanförnu verið við eftirlit- og löggæslu á vestur- og norðurmiðum þar sem varðskipsmenn hafa farið til eftirlits um borð í 21 skip og báta á svæðinu. Í kjölfar skyndiskoðana hafa verið gefnar út 2 kærur vegna meintra ólöglegra veiða og 8 áminningar til skipstjóra. Einnig hafa verið gefnar út 3 skyndilokanir í samráði við Hafrannsóknarstofnun eftir að mælingar á afla gáfu of hátt hlutfall smáfisks. Var sigling varðskipsins um svæðið einnig notuð til æfinga og þjálfunar með og án þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Við eftirlit varðskipanna er sérstaklega horft til veiða íslenskra skipa á lokuðum svæðum, ólöglegra veiðarfæra, brottkasts, haffæris, búnaðar fiskiskipa og réttinda áhafna. Við skyndiskoðun eru skipsskjöl, búnaður, lögskráning, atvinnuréttindi yfirmanna, veiðarfæri og afli skoðaður.
Myndir úr safni v/s Ægir