Nýleg tóg var bundið við tundurduflið sem kom í veiðarfæri Sóleyjar Sigurjóns

  • 12042012_DuflIMG_0007

Fimmtudagur 12. apríl 2012

Staðsetning duflsins sem kom í veiðarfæri togarans Sóleyjar Sigurjóns kom sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar nokkuð á óvart þegar tilkynningin barst Landhelgisgæslunni í gærmorgun. Vitað er að tundurdufl voru lögð norðar á hafsvæðinu eða nær Garðskaga en ekki á þessu svæði þar sem Sóley Sigurjóns var að veiðum. Þegar farið var með þyrlu að skipinu staðfestist að um væri að ræða þýskt tundurdufl frá seinni heimstyrjöldinni. Þá var skipinu gert að halda tafarlaust til hafnar til að hægt yrði að gera duflið óvirkt.

11042012_dufl-001

Þegar sprengjusérfræðingar  komu um borð í Sóleyju Sigurjóns bentu skipverjar þeim á að nýlegt tóg væri í auga á duflinu, sjá mynd. Virðist vera sem að annað skip hafi fengið duflið í veiðarfærin en síðan látið það falla að nýju í hafið. Er það mjög ámælisvert því með því eru viðkomandi að stofna sínu eigin öryggi og annarra í hættu. Mörg dæmi eru um það erlendis frá að alvarleg slys hafi orðið þegar hreyft hefur verið við slíkum duflum áður en þau eru meðhöndluð rétt,  því hver hreyfing getur komið á stað öflugri sprengingu.

vlcsnap-2012-04-11-21h55m29s23
Duflinu eytt. Smellið á mynd til að sjá myndskeið.

Landhelgisgæslan gerir allt sem mögulegt er til að koma til móts við sjómenn sem fá tundurdufl í veiðarfærin og hraða sem mest þeim tíma sem fer í aðgerðina. Skipverjar Sóleyjar Sigurjóns sýndu hárrétt viðbrögð með því að hafa samband. Þúsundir dufla finnast ennþá innan íslenska hafsvæðisins og eru þau í góðu ásigkomulagi þrátt fyrir langa legu í sjó, en sprengiefnið verður viðkvæmara með aldrinum.  Er það á ábyrgð allra að tilkynna um slík dufl og auka um leið öryggi þeirra sem fara um svæðið.