Umfangsmikil leit að neyðarblysi sem sást á lofti úti fyrir Straumsvík

  • GNA_E1F2236

Laugardagur 21. apríl 2012

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um kl. 22:00 í gærkvöldi tilkynning um neyðarblys sem sást á lofti úti fyrir Straumsvík. Í kjölfarið voru kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Reykjavík og Hafnarfirði sem fóru til leitar með björgunarskip og báta, einnig voru kallaðir út menn til að taka þátt í aðgerðum á landi. Um klukkustund síðar eða kl. 23:00 var öðru blysi skotið á loft, var þá ákveðið að fjölga leitarsveitum björgunarsveita. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út um það leyti en var útkallið afturkallað þar sem þyrlan sem var til taks í Reykjavík hentaði ekki vel til leitarinnar.

Leitinni var hætt klukkan 02:52 í nótt þegar leitarsvæðið hafði verið fínkembt og þótti ljóst að neyðarblysinu hafi verið skotið upp af landi. Útkallið var óhemjuviðamikið og tók fjöldi báta og björgunarsveitarmanna þátt í því.

Bannað er að skjóta upp flugeldum á þessum árstíma og ekki gera sér allir grein fyrir að auðvelt er að villast á neyðarblysum og almennum flugeldum. Neyðarblys eru mjög mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur og utan hins hefðbundna flugeldatímabils þarf að sækja um sérstakt leyfi til að skjóta upp skoteldum. Ekki er vitað til þess að slíkt leyfi verið veitt en leit sem þessi er ekki aðeins mjög kostnaðarsöm heldur einnig tímafrek.