Flutningaskip strandar í innsiglingunni í Sandgerði

  • ÞOR_MG_1326

Laugardagur 5. maí 2012 kl. 09:25

Landhelgisgæslunni barst kl. 08:30 í morgun tilkynning um að erlent flutningaskip, Fernanda/J7AM7 væri strandað í innsiglingunni í Sandgerði en skipið missti af beygju þegar það sigldi með lóðs inn í höfnina.  Um borð eru 11 manns og allt í lagi um borð. Björgunarskipið í Sandgerði er á staðnum og maður frá þeim um borð í skipinu.

Varðskipið Þór var samstundis kallað til aðstoðar en það var staðsett á Stakksfirði. Er það væntanlegt á staðinn upp úr kl. 10:00. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út og verður hún kominn á staðinn um kl. 09:50 og mun hún fljúga yfir flutningaskipið til að kanna hvort olía lekur frá því og verður síðan til taks á svæðinu ef á þarf að halda.

Ágætt veður er á staðnum. Skv. sjávarfallatöflum er að falla út og verður fjara kl. 11:00 en flóð um kl. 17:00 og verður þá væntanlega hægt að ná skipinu af strandstað.

Flutningaskipið Fernanda/J7AM7 er 2576 brúttótonn og 75 metrar að lengd.