TF-LÍF aðstoðar við að slökkva mosabruna í Kapelluhrauni

  • TF-Lif_losar_ur_tunnunni,_slookvilidsmenn_filgjast_med

Mánudagur 21. maí 2012

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í eftirmiðdaginn til að aðstoða Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við mosabruna í Kapelluhrauni. Lent var skammt frá vettvangi þar sem slökkvifatan var hengd neðan í þyrluna. Var síðan farið í loftið að nýju og vatn sótt í Kleifarvatn, samtals tíu ferðir og 1700 lítrar í hverri ferð. Nánast alveg tókst að slökkva eldinn með notkun slökkvifötunnar, seinustu glæðurnar voru slökktar af slökkviliðinu.

Slökkvifatan var keypt í kjölfar Mýraeldanna vorið 2006 og er henni m.a. ætlað að ráða niðurlögum elda á svæðum sem farartæki slökkviliðsins geta ekki af einhverjum ástæðum nálgast, má þar nefna sumarbústaðasvæði og sinuelda.

Slökkvifatan er hengd  neðan í þyrluna, henni dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Fatan er síðan tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og  vatnið gusast út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2100 lítrar en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1500 lítrum upp í fyrrnefnda 2100 lítra.

Mynd úr safni LHG frá æfingu með slökkviliðinu.