Ráðningu flugmanna á flugvél Landhelgisgæslunnar lokið

  • SIF1_2012

Mánudagur 11. júní 2012

Stöður flugmanna á flugvél og þyrlur hjá Landhelgisgæslu Íslands voru auglýstar lausar til umsóknar í janúar sl. og rann umsóknarfrestur út 7. febrúar.  Hefur nú verið lokið við ráðningu á flugvél Landhelgisgæslunnar.

Alls bárust 54 umsóknir um stöðu flugmanna á flugvélina en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka áður en úrvinnsla fór fram.  Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka á síðari stigum.

Landhelgisgæslan fékk ráðningarstofuna Capacent til að aðstoða við ráðningarferlið.  Að lokinni yfirferð yfir allar umsóknir voru valdir út þeir umsækjendur sem uppfylltu allar hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu.  Af þeim voru alls níu umsækjendur sem uppfylltu þær kröfur best.  Þeir umsækjendur þreyttu bókleg og verkleg próf og fyrir þá var lagt sálfræðimat.  Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að bjóða sjö hæstu umsækjendum í viðtal og leggja fyrir þá persónuleikamat.

Viðtölin fóru fram hjá Capacent og voru þrír fulltrúar Landhelgisgæslunnar viðstaddir, fulltrúi frá Capacent auk ráðgjafa frá Icelandair.  Að loknum viðtölum, persónuleikamati, verklegu prófi, bóklegu prófi og sálfræðimati voru þrír umsækjendur sem uppfylltu best þær hæfniskröfur sem tilgreindar voru í auglýsingunni og hlutu þeir samanlagt hæstu einkunn í ráðningarferlinu.  Tveimur hæstu var boðið starf, annar þeirra afþakkaði starfið, þeim þriðja var þá boðið starfið.

Samkvæmt framansögðu hafa þeir Hjálmar Vatnar Hjartarson og Hólmar Logi Sigmundsson verið ráðnir flugmenn hjá Landhelgisgæslunni.  Um er að ræða tímabundna ráðningu til sex mánaða.

Landhelgisgæslan þakkar þeim sem sýndu starfinu áhuga og óskar þeim velfarnaðar.

Enn á eftir að taka afstöðu til umsókna vegna þyrluflugmannsstarfs.