Leit þyrluáhafnar að hvítabirni - fundu öldumælisdufl

  • Straumnesdufl_TFLIF

Fimmtudagur 5. júlí 2012

Landhelgisgæslunni barst kl. 16:55 í gær beiðni frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um aðstoð þyrlu eftir að óstaðfestar fregnir bárust af hvítabirni á sundi við Vatnsnes.  Þegar þyrlan TF-LIF kom á svæðið var fljótlega lent við Geitafell þar sem för sáust í sandinum sem talin voru vera eftir bjarndýrið. Var í framhaldinu leitað ýtarlega um Vatnsnes án árangurs. Í samráði við lögreglu var þá ákveðið að gera hlé á leitinni til morguns.  Á fimmtudagsmorgun var farið að nýju í loftið og leitað með strandlengjunni frá Skaga inn Húnafjörð, yfir Þingeyrarsand og fyrir Vatnsnes. Var síðan haldið áfram alveg vestur um og norður í Bjarnafjörð á Hornströndum.

Ekki sáust frekari merki um hvítabjörn þrátt fyrir ýtarlega leit en hins fegar fann þyrluáhöfnin öldumælisdufl sem fyrir nokkru síðan slitnaði upp. Hafði duflið rekið frá Straumnesi,  fyrir Horn og inn á Strandir. Var lent við duflið og það tekið um borð. Þá var flogið á Ísafjörð til eldsneytistöku og síðan til Reykjavíkur þar sem lent var kl. 17:30.

vatnsnes05072012

Hér er hafískort frá Raunvísindastofnun sem sýnir að aðfaranótt 5. júlí var hafísinn næst landi 26 sjómílur N af Hælavíkurbjargi (sbr gula strikalínan á kortinu).

Mynd úr þyrlu frá áhöfn TF-LIF.