Þyrla kölluð til leitar NA af Vatnajökli

  • GNA3_BaldurSveins

Miðvikudagur 18. júlí 2012 kl.09:30

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN var í gær kl. 14:35 kölluð út að beiðni lögreglunnar á Egilstöðum til leitar að þýskum hjónum sem ætluðu að ganga yfir Eyjabakkajökul sem er í norðaustanverðum Vatnajökli en snéru við á laugardagskvöld. Þau eru talin vera á göngu NA af Vatnajökli á svæði sem talið er illfært yfirferðar bæði ökutækjum og gangandi. Þyrlan fór í loftið kl. 15:25 og lenti á Egilsstoðum um kl. 17:00. Var þar farið yfir stöðuna með lögreglu og björgunarsveitarmönnum áður en farið var til leitar kl. 17:35. TF-SYN grófleitaði svæðið var farið vel yfir hnjúkana umhverfis Snæfell. Leitin bar ekki árangur og var lent kl. 21:35 á Neskaupstað. Í morgun fór þyrlan að nýju í loftið um kl. 09:00 og verða leiðsögumaður og björgunarsveitarmaður einnig í þyrlunni við leitina. Nokkuð bjart er yfir leitarsvæðinu en þoka út við ströndina.  

Um kl. 10:00 barst tilkynning frá skálaverði í Múlaskála að hann hefði fundið hjónin í tjaldi milli Egilssels og Múlaskála. Voru þau við góða heilsu. Var þyrla Landhelgisgæslunnar þá kölluð tilbaka og mun hún skila björgunarsveitarmanni og leiðsögumanni á Egilsstaði áður en haldið verður til Reykjavíkur.