Sjúklingur sóttur í skemmtiferðaskip úti fyrir Langanesi

  • SkemmtifskipSjukraflug

Þriðjudagur 7. ágúst 2012

Landhelgisgæslunni barst í kvöld beiðni um aðstoð þyrlu vegna veikinda um borð í skemmtiferðaskipinu Saga Sapphire sem staðsett var úti fyrir Langanesi. Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að kalla út þyrlu sem fór í loftið kl. 21:30 og var komið að skipinu um kl. 23:50.

Stýrimaður ásamt lækni sigu um borð í skipið og var þá staðfest að nauðsynlegt væri að flytja manninn með sjúkraflugi til Reykjavíkur en þyrlan þurfti að fara til eldsneytistöku á Akureyri. Um miðnætti var óskað eftir aðstoð Mýflugs og lenti þyrlan á Akureyrarflugvelli kl. 00:35 þar sem sjúkraflugvél beið ferðbúin. Eftir að lokið var við að færa sjúklinginn á milli var farið í loftið kl.00:55. Lent var á Reykjavíkurflugvelli kl.01:39 og gekk ferðin að óskum.

Mynd úr safni LHG frá sjúkraflugi sem farið var árið 2007