Kiwanisklúbburinn Eldfell afhendir Landhelgisgæslunni veglegan styrk

  • MEldingafhendingIMG_3886

Mánudagur 3. september 2012

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti í morgun viðtöku, um borð í varðskipinu Þór,  ávísun á 2,7 milljónir króna frá félögum Kiwanisklúbbsins Eldfells. Þessi veglegi styrkur er afrakstur söfnunarátaks Eldfells sem hófst í maí sl. og var markmið átaksins að búa sjúkraklefa varðskipsins Þórs sambærilegum tækjum og eru um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Við afhendinguna þakkaði Georg félögum Eldfells innilega fyrir einstakt og óeigingjarnt starf við söfnunina. Styrkurinn kemur sér sérstaklega vel fyrir varðskipið og verður nú, með aðstoð sérfræðinga Landspítalans, lokið við að útbúa sjúkraklefann þeim tækjum sem til staðar þurfa að vera við aðhlynningu slasaðra á sjó.

Söfnun Kiwanisklúbbsins Eldfells fólst í sölu á minnislyklum til einstaklinga og fyrirtækja og var söfnuninni heilt yfir mjög vel tekið. Í þjóðfélaginu er augljóslega mikil velvild í garð Landhelgisgæslunnar .  Hápunkturinn var um borð í varðskipinu Þór á Hátíð hafsins - Sjómannadaginn í Reykjavík, þar sem minnislyklarnir rokseldust þegar rúmlega 4.000 gestir heimsóttu varðskipið.  Flestir tölvutækir Íslendingar eiga minnislykla, en þeir hikuðu ekki við að bæta við sig einum af þessu tilefni. Nokkur fyrirtæki keyptu m.a.s. fleiri en 50 lykla og var nafn þeirra áritað á afhendingarskjöld, sem hengdur verður upp í sjúkraklefa varðskipsins Þórs.
 
Myndir í vinnslu.

Mynd 1 (frá vinstri), Sigurður Steinar, Georg, Guðmundur Pétur Bauer, formaður fjáröflunar og styrktarnefndar  og Jón Óskar Þórhallsson, forseti Eldfells.
Mynd 2 (f.v.), Birgir Stefánsson, Hilmar Adólfsson, Atli Heiðar Þórsson, svo þrjú frá þér.
Mynd 3 (fv.), Guðmundur Pétur Bauer, Jón Óskar Þórhallsson, Georg, Sigurður Steinar.
Mynd 4 (fv), Ottó Björgvin Óskarsson, Knútur Kjartansson, Óskar Valgarð Arason, Birgir Stefánsson
Mynd 5, (fv), Ottó Björgvin Óskarsson (á bekknum), Guðmundur Pétur Bauer, Jón Óskar Þórhallsson, Georg.