Áhöfn skútunnar bjargað um borð í færeyska varðskipið Brimil

  • Brimil_batur

Þriðjudagur 4. september 2012Brimil_batur

Þær fregnir bárust Landhelgisgæslunni upp úr kl. 19:00 að færeyska varðskipinu Brimil tókst að bjarga um borð öllum skipverjum pólsku skútunnar RZESZOWIAK sem sendi út neyðarkall rétt fyrir klukkan sjö í morgun.Var skútan staðsettur um 80 sjómílur vestur af Færeyjum. Höfðu þyrlur dönsku strandgæslunnar og Atlantic Airways ítrekað reynt að bjarga fólkinu en tíu manns voru í áhöfn skútunnar. Björgun gekk erfiðlega vegna veðurs og rak skútuna  með brotið mastur, undan veðri í stormi í um 10-12 metra ölduhæð.

Hér er frétt MRCC Thorshavn um björgunaraðgerðina

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarskeyti frá skútunni  rétt fyrir klukkan sjö í morgun og var þá björgunarstjórnstöðinni í Þórshöfn í Færeyjum gert viðvart og tók hún stjórn aðgerða í sínar hendur. Samningur er á milli LHG og færeyskra björgunaryfirvalda um að þau sjái um leit og björgun innan færeyskrar fiskveiðilögsögu þó að hún falli innan ábyrgðarsvæði LHG vegna leitar og björgunar. Í samvinnu höfðu stjórnstöðin og stjórnstöð LHG samband við skip á svæðinu og báðu þau um að halda á staðinn. Varðskip og þyrlur voru send af stað frá Færeyjum. Í undirbúningi var að senda flugvél LHG til leitar ef á þyrfti að halda en þar sem skútan fannst reyndist ekki þörf á því.
Skútan RZESZOWIAK er 14 metra löng og hafði hún  viðkomu í Reykjavík í júlí, hélt þaðan til Grænlands og kom til Dalvíkur í seinni hluta ágúst.