Nætursjónaukar auka öryggi og magna ljós í myrkri

  • Snapshot-2-(18.3.2012-16-10)

Þriðjudagur 18. september 2012

Á haustin taka taka við hjá þyrluáhöfnum reglubundnar æfingar með nætursjónauka en Landhelgisgæslan hefur frá árinu 2002 verið með búnaðinn í Super Puma þyrlunum TF-GNA og TF-LIF. Að sögn flugstjóra auka nætursjónaukar notkunargetu þyrlanna um 90% og skipta sköpum við björgunarstörf. Skemmst er að minnast björgunar fimm manna sem voru í sjálfheldu á eyri úti í Jökulsá í Lóni í upphafi mánaðarins. Aðstæður voru afar erfiðar og Ijóst að ekki hefði verið hægt að koma mönnunum til hjálpar hefði sjónaukanna ekki notið við.

Í Morgunblaðinu 15. september sl. birtist viðtal við Björn Brekkan Björnsson, flugstjóra og kennara hjá Landhelgisgæslunni um nætursjónaukana og má hér sjá viðtalið en það tók Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir blaðamaður og greininni fylgdu myndir Árna Sæberg ljósmyndara.

„Samakvöld og TF-LIF sinnti björgunarstarfinu í Lóni fylgdist ljósmyndari Morgunblaðsins, Árni Sæberg, með næturæfingu TF-GNA út af Faxaflóa.Tók varðskipið Þór einnig þátt í æfingunni þar sem æfð var þyrlubjörgun manna úr sjó, m.a. með aðstoð sjónaukanna“.

„Að sögn Björns Brekkan Björnssonar, flugstjóra og kennara hjá Landhelgisgæslunni, lenti þyrlusveitin oft á tíðum í vandræðum að nóttu til við leitar- og björgunarstörf fyrir tíð sjónaukanna, þar sem myrkur og skyggni til athafna var lítið sem ekki neitt og aðstæður beinlínis hættulegar björgunarmönnum. Fyrir vikið voru næturleitir miklum takmörkunum háðar og oft á tíðum ekki hægt að fara af stað. Að sögn Björns jókst næturgeta Gæslunnar til að sinna leitum og björgunum til mikilla muna við kaupin á sjónaukunum og má áætla að þjónustugeta hennar hafi aukist um 90-95%, sérstaklega inni á landi. „Með tilkomu nætursjónaukanna er hægt að fara út við aðstæður þar sem lítið hefði verið hægt að gera áður," segir hann. Þá búa björgunarmenn við aukið öryggi með tilkomu sjónaukanna þar sem þeir hafa betri sýn yfir aðstæður þar sem skyggni er lítið og aðstæður til flugs oft afar takmarkaðar. Ekki er hins vegar hlaupið að því að vinna með sjónaukana að sögn Björns. Sjónsviðið sem þeir gefa mönnum er mjög takmarkað eða aðeins um 40 gráður, en mannsaugað nemur að jafnaði um 210 gráður. Því er von að menn þurfi að venjast því að vinna með tækin.

Mikillar þjálfunar þörf

Landhelgisgæslan hefur leyfi frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu Pentagon til að notast við sjónaukana í starfsemi sinni en þeir teljast til hergagna og eru bandarísk framleiðsla. Þurfa menn að undirgangast viðamikla þjálfun í að nota búnaðinn í upphafi, samanber við að stýra þyrlunum. Árleg endurþjálfun fer síðan fram á haustin til að venja menn aftur við en búnaðinum er lagt yfir bjarta sumarmánuðina. Um leið og haustar hefst endurþjálfun áhafnarmeðlima í notkun sjónaukanna og eru farin 3 til 6 æfingaflug á viku yfir allan veturinn, bæði til sjós og fjalla, öll í myrkri. Þarf hver flugmaður að lágmarki að fljúga
200 flugtíma á ári til þess að vera tilbúinn í flug við allar aðstæður að sögn Björns. Tækin sjálf eru engin smásmíði en þau vega um eitt kíló að þyngd og eru hengd framan á hjálma áhafnarmeðlima. Til að vega upp á móti þunganum að framan eru síðan 400 gr. blýstykki einnig fest aftan á hjálmana. Reynir því mikið á háls- og axlavöðva manna þegar unnið er með búnaðinn og ekki óþekkt að menn fái hálsríg fyrst á haustin þegar farið er að vinna með hann að nýju.

Magna upp ljós

Að sögn Björns virka sjónaukarnir þannig að þeir magna upp það ljós sem fyrir þeim verður en best virka þeir við tungl- og stjörnuskin. Þá eru þeir þannig útbúnir að verði of skært ljós fyrir þeim hætta þeir að virka. Skýrir það m.a. hvers vegna þarf að gera breytingar á þyrlum þar sem notast er við búnaðinn en breyta þarf allri lýsingu í mælaborði þeirra svo að hún trufli ekki sjónaukana. Skýrir þetta einnig hvernig hægt er að koma auga á ljóstýrur úr nokkurra kílómetra fjarlægð, til dæmis af björgunarvestum eða neyðarblysum, en sjónaukarnir geta magnað slíkt ljós upp allt að 40.000 –falt“.

Morgunblaðið 15. september 2012 - Sunnudagsmogginn. Bls. 20-21. Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir blaðamaður og Árni Sæberg ljósmyndari.

Myndina tók þyrluáhöfn við björgun á Vatnajökli sl. vetur.