Landhelgisgæslan tók þátt í Björgun

  • bjorgun-2012

Mánudagur 22. október 2012

Ráðstefnan Björgun sem skipulögð er af Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu fór fram á Grand Hótel um helgina. Var ráðstefnan afar vel sótt enda fjöldi áhugaverðra fyrirlestra í boði eða 60 talsins og gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig var þátttakendum gefinn kostur á að sækja námskeið sem haldin voru dagana fyrir ráðstefnuna.

Tveir starfsmenn Landhelgisgæslunnar voru með fyrirlestra á ráðstefnunni en það voru þeir Henning Þ. Aðalmundarson, stýrimaður og sigmaður í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fjallaði um þyrludeild Landhelgisgæslunnar og Snorre Greil stýrimaður á varðskipinu Þór sem fjallaði um æfinguna SAREX Greenland Sea 2012 sem fór fram í byrjun september.

Í fyrirlestri sínum kynnti Henning þyrludeild LHG,  þ.e. búnað og menntun áhafna. Útskýrði hvernig þyrludeildin æfir fyrir hið óvænta og hvernig uppsetning æfinga fer fram. Við hvaða aðstæður nýtist þyrlan og hvenær þarf frá að hverfa vegna veðurs eða annarra aðstæðna? Einnig ræddi hann um nýlegt útkall þar sem fjarskipti við björgunarsveitir skiptu sköpum í að björgun væri möguleg við mjög erfiðar aðstæður.  Henning hefur starfað sem stýrimaður, sigmaður og neyðarflutningamaður (EMT-I) í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar frá því 2007. Þar áður var hann á varðskipum Landhelgisgæslunnar. Henning er með 4. stig stýrimannaskólans í Reykjavík (Fjöltækniskólans), og er menntaður björgunarkafari.

Snorre Greil stýrimaður á varðskipinu Þór fjallaði um æfinguna SAREX Greenland Sea 2012 sem var haldin í tengslum við samning Norður Heimskautsráðsins vegna leitar og björgunar og voruí henni þjálfuð sameiginleg viðbrögð þjóða Norður Heimskautsráðsins þegar skemmtiferðaskip lendir í áföllum  á afskekktri austurströnd Grænlands. Takmark æfingarinnar var að þjálfa raunveruleg leitar- og björgunarviðbrögð á svæði sem fjarri er öllum björgunareiningum.  Herstjórnin á Grænlandi „Island Commander Greenland“  var skipuleggjandi og ábyrgaraðili æfingarinnar en í henni tóku þátt fjölmargar björgunareiningar og aðilar norðurskautsríkjanna.Helstu áskoranir á svæðinu eru m.a. hafís, ónógar sjómælingar og takmörkuð fjarskipti vegna hárra fjalla og hárrar breiddar.Þáttaka Íslands samanstóð af varðskipinu Þór, gæsluflugvélinni TF-SIF, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, Almannavörnum og Keflavíkurflugvelli. Kynningin gaf nákvæmari mynd af æfingunni og varpaði ljósi á umhverfi hennar, tilgang og árangur.

Lt Snorre Greil var verkefnisstjóri fyrir SAREX Greenland Sea 2012 fyrir hönd Landhelgisgæslunnar. Hann fylgdi æfingunni á vettvangi sem eftirlitsaðili um borð í varðskipinu Þór. Snorre er stýrimaður um borð í varðskipinu Þór og hefur verið í áhöfn á öllum núverandi varðskipum Landhelgisgæslunnar. Í landi hefur hann unnið á aðgerðarsviði og um tíð í flugdeild Landhelgisgæslunnar sem stýrimaður um borð í eftirlitsflugvélinni TF-SYN.Erlendis hefur hann verið staðsettur sem tengiliður í fjölþjóðlegri samhæfingarstöð landamærastofnunnar FRONTEX í Aþenu, Madrid og Róm í fjórum mismunandi fjölþjóðlegum aðgerðum. Snorre er umsjónarmaður gervitunglaþjónustunnar Clean Sea Net á Íslandi. Clean Sea Net er þjónustu Alþjóðlegrar siglingaöryggisstofnunar EMSA sem greinir olíuflekki á sjó.Áður en hann kom til Landhelgisgæslunnar árið 2006 vann hann sem stýrimaður á kaupskipum sem og um borð í danska herskipinu HDMS Vædderen við Færeyjar og á Grænlandi.

Myndir Jón Páll Ásgeirsson, yfirstýrimaður og SL.

2012-10-20,-Snorri-b
Snorre Greil stýrimaður fjallar um hlutverk Landhelgisgæslunnar í æfingunni SAREX Greenland Sea 2012

2012-10-20.-Snorri
Snorre Greil stýrimaður

2012-10-20,-Stjani-og-Henning
Hressir að vanda. Kristján Þ. Jónsson, fyrrv. skipherra og Henning Þ. Aðalmundsson, stýrimaður og sigmaður.

2012-10-20,-Landsbj.-2012-a
Kristján Þ. Jónsson, Halldór B. Nellet, skipherra og Auðunn Kristinsson, verkefnisstjóri á Aðgerðasviði.