Æfingin Northern Challenge hlýtur viðurkenningu

  • NC2012_W1D3_Doug_Elsey_Photo_034_fhdr

Miðvikudagur 27. nóvember 2012

Jamie Shea,  yfirmaður hjá deild Emerging Security Challenges hjá höfuðstöðvum NATO í Brussel afhenti í vikunni Séraðgerða- og sprengjueyðingasviði Landhelgisgæslunnar viðurkenningu vegna æfingarinnar Northern Challenge sem Landhelgisgæslan hefur skipulagt og borið ábyrgð á síðastliðin tólf ár með aðstoð frá NATO. Í erindi Shea kom fram að mikil ánægja væri innan NATO með æfinguna. Hún sé einstök hvað varðar umhverfi,  skipulag,  hvetjandi og faglegt andrúmsloft sem sumir þátttakendur töluðu jafnvel um sem heimilislegt. Sagði hann æfinguna vera viðburð sem í raun lýsir að vissu leyti því starfi sem á sér stað innan NATO, þ.e. margvísleg vinnubrögð, menningarlegur margbreytileiki og eldmóður sem lýsir sér m.a. í vilja til að leysa sameiginleg verkefni - jafnvel í roki og grenjandi rigningu. Ætti æfingin að vera fyrirmynd annarra æfinga.

Þorsteinn Ingólfsson, sendiherra Íslands hjá NATO tók undir orð Shea og lýsti yfir ánægju með að herlaust land eins og Ísland geti veitt NATO aðstoð með æfingu sem þjálfar sprengjusérfræðinga til friðargæslu.

NC2012_W1D3_Doug_Elsey_Photo_093

Er hlutverk sprengjusérfræðinga að hreinsa  sprengjur af átakasvæðum og er það mikilvægur þáttur í uppbyggingarstarfi sem fer fram til að skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar. Víða er mikið starf óunnið en talið er að um 90% þeirra sem látast af völdum sprengja á átakasvæðum séu börn.

NC2012_W1D3_Doug_Elsey_Photo_282

Markmið æfingarinnar Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir og er búinn til samskonar búnaður og fundist hefur víðsvegar um heim. Reynt er að skapa aðstæður eins raunverulegar og hægt er og er rannsóknarþátturinn tekinn fyrir þar sem ákveðin teymi hafa einungis þann tilgang að rannsaka vettvang og fara yfir sönnunargögn. Er æfingin því mjög krefjandi og undirbýr sprengjusérfræðinga eins og best verður á kosið fyrir störf á vettvangi.

Myndir frá æfingunni Northern Challenge 2012 -

© Doug Elsey.