Alvarlegt mál að senda björgunaraðila í erindisleysur

Neyðarkall barst stjórnstöð - talið vera gabb

  • _MG_0566

Þriðjudagur 18. desember 2012

Síðastliðinn laugardag barst neyðarkall á rás 16,  neyðaruppkallsrás skipa og báta til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, vaktstöðvar siglinga. Sagt var að bifreið væri föst á Þorskafjarðarheiði.

Boðin komu sterkt inn á talstöðvar á Steinnýjastaðafjalli, Ennishöfða og Hofsósi. Neyðarkallinu var strax svarað en engin viðbrögð bárust frá þeim sem kallaði.

Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar var upplýst um neyðarkallið og kölluðu þeir til björgunarsveitir frá Reykhólum og Hólmavík til aðstoðar. Leituðu sveitirnar á heiðinni en án árangurs. Talið er líklegt að um gabb hafi verið að ræða sem er mjög alvarlegt mál að senda björgunaraðila í erindisleysur. Þetta gæti tafið önnur raunveruleg verkefni og kostar að sjálfsögðu bæði tíma og peninga.

Fjöldi skipa og báta, bifreiðar, neyðarskýli ofl hafa aðgang að þessari rás, hún eingöngu að notast þegar nauðsyn ber til eða í neyðartilfellum.