Myndir og fréttir frá árinu sem er að líða
Sunnudagur 30. desember 2012
Landhelgisgæsla Íslands óskar samstarfsaðilum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakkar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.
Hér má sjá innihald ýmissa frétta og myndir úr fjölbreyttu starfi Landhelgisgæslunnar árið 2012.
Varðskipið Ægir og TF-SIF
6.janúar 2012
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eyddi fyrir hádegi í dag dufli sem fannst við Selfljótsós á sunnanverðum Héraðssandi. Um var að ræða tundurdufl frá seinni heimstyrjöldinni.
5. febrúar 2012
Þyrlan TF-SYN lenti í fyrsta sinn á Reykjavíkurflugvelli. Þyrlan sem leigð var frá Noregi til leitar-, björgunar- og eftirlitsstarfa er af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332 L1, sömu tegundar og TF LIF og TF GNA.
16.febrúar 2012
Landhelgisgæslan verður vör við óvenjulegt siglingalag Brúarfoss - Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar höfðu samband við flutningaskipið Brúarfoss þar sem skipið var statt V-af Garðskaga í hefðbundinni siglingaleið í um 6 sjómílna fjarlægð frá landi. Tóku varðstjórar eftir í ferilvöktunarkerfum að skipið var komið á rek. Kom þá í ljós að skipið átti við vélavandamál að stríða og unnið var að mati á aðstæðum um borð.
27. mars. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar barst aðstoðarbeiðni frá lögreglunni vegna skothylkis sem þeim höfðu fengið í vörslu sína úr dánarbúi. Kom í ljós að um var að ræða 57 mm fallbyssuskot sem sprengjusveitin sótti og fór með til eyðingar.
18. mars 2012
Þyrla LHG sótti menn á Vatnajökul. Nætursjónaukum þyrlunnar og réttum undirbúningi ferðamannanna að þakka hversu vel gekk að bjarga þeim
15.mars 2012
LHG tekur þátt í nýsköpunarverkefni OK Hull -
Íslenska fyrirtækið OK Hull afhenti nýverið séraðgerða- og sprengjueyðingasviði Landhelgisgæslunnar átta metra harðbotna slöngubát sem er frumgerð (prótótýpa) og verður prófaður við ýmsar aðstæður á næstu mánuðum. OK Hull hefur unnið að þróun á nýju skrokklagi sem sótt hefur verið um einkaleyfi á. Hönnunin byggir á skrokklagi sem bæði sparar eldsneyti, heggur ölduna mun minna og hefur almennt mýkri hreyfingar en bátar sem áður hafa verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni.
5.mars 2012
Flestir treysta Landhelgisgæslunni -
Landhelgisgæslan nýtur traust 89,8% landsmanna samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Í ár tóku 97% aðspurðra afstöðu til könnunarinnar og dreifist traustið nokkuð jafnt á milli kynja og aldurs aðspurðra. Virðist traust landsmanna til Landhelgisgæslunnar hafa aukist lítilsháttar milli ára,
3. apríl 2012
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF flaug með vísindamenn yfir Öskjuvatn til að kanna aðstæður á svæðinu með hitamyndavél, eftirlits- og leitarratsjá flugvélarinnar. Óskað var eftir aðstoð TF-SIF þar sem að í mars kom í ljós að Öskjuvatn var orðið íslaust, sem þykir óvanalegt.
10.apríl 2012
Fjölþjóðleg björgunaræfing
Landhelgisgæslan tók í dag þátt í fjölþjóðlegu björgunaræfingunni Dynamic Mercy. Æfð voru viðbrögð við flugatviki þar sem lítil flugvél lenti í vandræðum og brotlenti í sjó.
11. apríl 2012
Landhelgisgæslunni barst tilkynning frá togveiðiskipinu Sóleyju Sigurjóns sem fengið hafði dufl í veiðarfærin um 20 sml vestur af Reykjanestá. Nýlegt tóg var bundið við duflið. Þegar skipið kom að landi var áhöfnin send frá borði og var tundurduflið flutt í lögreglufylgd til eyðingar. Áhöfn Sóleyjar Sigurjóns sýndi hárrétt viðbrögð
25. apríl 2012
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (JRCC-Ísland) tók tók þátt í æfingu með norskum samstarfsaðilum þar sem þjálfuð voru viðbrögð og samhæfing aðgerða vegna mögulegs eldgoss á Jan Mayen.
27.apríl 2012
Varðskipið Ægir tók norska línuskipið TORITA í tog undan austurströnd Grænlands. Beiðni um aðstoð frá skipinu barst Landhelgisgæslunni á miðvikudag þegar það var statt um 500 sml SV af Garðskaga eða á mörkum íslenska leitar- og björgunarsvæðisins og þess grænlenska.
29. apríl 2012
Varðskipið Þór, hélt til Íslands eftir vélaskipti hjá Rolls Royce Bergen í Noregi. Varðskipið sótti pramma til eyjunnar Kvamsøya í Noregi og dró hann til Íslands.
30.apríl 2012
TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar var við eftirlit á Reykjaneshrygg og kannaði stöðuna á úthafskarfamiðum.
1. maí 2012
TF-LIF kom til landsins eftir skoðun í Noregi - Með komu TF-LIF til landsins var Landhelgisgæslan á ný með þrjár þyrlur til taks. Mynd Baldur Sveinsson.
1. maí 2012
Landhelgisgæslunni barst neyðarkall frá fiskibát sem staðsettur var um 0,5 sml NV af Látrabjargi. Sagði hann nærstaddan bát vera kominn á hliðina og skipverji bátsins fór í sjóinn. Betur fór en á horfðist.
2. maí 2012
Strandveiðar hófust að nýju - Mikið var um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á fyrsta degi strandveiðanna, um sjö hundruð skip og bátar voru í fjareftirliti fyrsta daginn en allir bátar sem fara til strandveiða þurfa að tilkynna Landhelgisgæslunni brottför og komu til hafnar.
3.maí 2012
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA sótti veikan skipverja um borð í rússneska togarann IOSIF SHMELKIN.
5. maí 2012
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um að erlent flutningaskip, Fernanda væri strandað í innsiglingunni í Sandgerði. Varðskipið Þór og þyrlan TF-LÍF voru kölluð út en þyrlan flaug yfir flutningaskipið til að kanna hvort olía læki frá því og var hún síðan til taks á svæðinu.
7. maí 2012
Varðskipið Þór og breska freigátan HMS ST ALBANS æfðu saman í Hvalfirði. Að lokinni æfingu fór fram athöfn til minningar um þá fjölmörgu sem fórust í skipalestum sem leið áttu um Norður Atlantshafið í seinni heimstyrjöldinni. Á myndinni sést Merlin þyrla freigátunnar æfa með Þór.
10. maí 2012
Athöfn fór fram um borð í varðskipinu Þór þar sem Ásatrúarfélagið afhenti Landhelgisgæslu Íslands gjöf upp á tvær milljónir króna sem er framlag félagsins til kaupa á björgunarþyrlu.
20.5.2012
Ellefu stýrimenn LHG útskrifuðust með skipherrapróf
24.5.2012 Þyrla kölluð út eftir að slys varð við Dyrhólaey þegar stór hluti af bjargbrún hrundi undan ferðamönnum.
17.6.2012
Landhelgisgæslunni barst kl. 22:11 beiðni um útkall þyrlu frá lögreglunni í Borgarnesi og 112 eftir að bátur sem var í skemmtisiglingu fann konu á skeri utan við Borgarnes en faðir hennar sem var með henni í siglingu lenti í sjónum. TF-LÍF fór í loftið kl. 22:37 og fann hún manninn í sjónum kl. 23:09.
15.6.2012
Sameiginlegt eftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu á Breiðafirði með harðbotna slöngubátnum Flóka, Smábátum sem stunda veiðar á Breiðafirði hefur fjölgað mikið með tilkomu strandveiða og mun meiri sókn er á grásleppuveiðar.
Hér er myndskeið sem sýnir eyðingu flugelda í júní 2012.
5. júlí 2012
Þyrluáhöfn leitaði að hvítabirni eftir að óstaðfestar fregnir bárust af hvítabirni á sundi við Vatnsnes
9. júlí 2012
Þyrla LHG aðstoðaði við að ráða niðurlögum sinuelds við Rauðkollsstaði á Snæfellsnesi.
Fimmtudagur 19. júlí 2012
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um eld í vélarrúmi fiskibáts með sjö menn um borð sem staðsettur var um 7 sjómílur S- af Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
7. ágúst 2012
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hófst á ný mánudaginn 13. ágúst nk. með komu flugsveitar portúgalska flughersins.
22. ágúst 2012
Þór æfði með norska varðskipinu KV Harstad á Eyjafirði. Áhafnir skipanna æfðu aðstoð við önnur skip, þ.a.m. slökkvistörf og leit að fólki um borð. Eru æfingar sem þessar mjög mikilvægar fyrir áhafnir varðskipanna og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla aðila að hafa æft samhæfingu, stjórnun, verklag og vinnubrögð á björgunarvettvangi.
16.ágúst 2012
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um að flugvél hefði verið snúið til Keflavíkur vegna sprengjuhótunar. Starfsmenn séraðgerða- og sprengjueyðingasviðs, lofthelgis- og öryggismálasviðs auk þyrluáhafnar komu að aðgerðinni sem var stjórnað af lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli.
Fimmtudagur 30. ágúst 2012
Eftirlits- og sjómælingabáturinn Baldur hefur í sumar verið notaður við sameiginlegt fiskveiðieftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu. Fyrirkomulagið hefur gengið mjög vel
Mánudagur 3. september 2012
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti viðtöku, um borð í varðskipinu Þór, ávísun á 2,7 milljónir króna frá félögum Kiwanisklúbbsins Eldfells. Þessi veglegi styrkur er afrakstur söfnunarátaks Eldfells sem hófst í maí sl. og var markmið átaksins að búa sjúkraklefa varðskipsins Þórs sambærilegum tækjum og eru um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar.
10.september 2012
Fjölþjóðlega leitar- og björgunaræfingin SAREX Greenland Sea 2012 var haldin við austurstönd Grænlands. Æfingin var haldin í tengslum við samning Norður Heimskautsráðsins vegna leitar og björgunar. Takmark æfingarinnar var að þjálfa raunveruleg leitar- og björgunarviðbrögð Norðurskautsþjóðanna.
4. september 2012
Þyrla LHG kölluð út eftir að maður féll í Jökulsá í Lóni. Takmarkaðar upplýsingar fengust frá staðnum aðrar en að fólk í hestaferð var að fara yfir ána og féll þá einn úr hópnum af baki og hvarf sjónum samferðamanna. Fimm manns voru í sjálfheldu á eyri úti í ánni. Reyndi björgunaraðgerðin mjög á getu þyrluáhafnarinnar.
26.september 2012
Varðskipið Ægir kom að björgun 130 flóttamanna í Miðjarðarðarhafi þær sex vikur sem varðskipið sinnti verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins. Var þetta á meðal þess sem kom fram í september útgáfu „The Border Post“ sem er fréttabréf Frontex.
5. október 2012
Þyrlur Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Skagströnd voru kölluð út vegna báts sem hvarf úr eftirlitskerfum þegar hann var um 35 sjómílur NA af Horni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir varðstjóra Landhelgisgæslunnar náðist ekki í bátinn eða aðra báta á sama svæði fyrr en þyrla Landhelgisgæslunnar var við það að fara í loftið. Náðist í nærstaddan bát sem sagði bátinn sem leitað var að vera á svipuðum slóðum og allt í lagi um borð. Er það afar slæmt þegar bátar sinna ekki hlustvörslu sem nauðsynleg er öllum sjófarendum enda getur það orðið til þess að farið verður í ónauðsynlegar og umfangsmiklar leitaraðgerðir.
2. október 2012
Northern Challenge - fjölþjóðleg æfing sprengjusérfræðinga haldin. Æfingin fór fram á Keflavíkurflugvelli og á fyrrum varnarsvæðum utan hans, í höfninni í Helguvík, Patterson svæðinu og í Hvalfirði. Að þessu sinni tóku tíu þjóðir með um tvö hundruð liðsmenn þátt í æfingunni en þær voru auk Íslands: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland, Holland, Belgía, Frakkland, Austurríki og Bandaríkin. Æfingin var haldin hér á landi í tólfta sinn en auk Landhelgisgæslunnar komu aðildarþjóðir NATO einnig að skipulagningu og framkvæmd æfingarinnar.
25. nóvember 2012
Bátur strandaði NV af Straumnesi - þyrla LHG bjargaði áhöfninni við erfiðar aðstæður sjá myndskeið. Landhelgisgæslunni barst neyðarkall frá fiskibát sem var staðsettur NV- af Straumnesi, í nágrenni Aðalvíkur. Tveir menn voru í áhöfn bátsins og náðu þeir að senda út neyðarkall til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar sem boðaði samstundis út björgunarskip - og báta Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, nærstödd skip og báta auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem tókst að ná mönnunum frá borði við erfiðar aðstæður.
29. nóvember 2012
Séraðgerða- og sprengjueyðingasvið Landhelgisgæslunnar hlaut viðurkenningu NATO vegna æfingarinnar Northern Challenge sem Landhelgisgæslan hefur skipulagt og borið ábyrgð á síðastliðin tólf ár. Markmið æfingarinnar er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum.
11. desember 2012
Varðskipið Týr sigldi norður fyrir land og var staðsett á Húsavík um jól og áramót. Jókst þar með umtalsvert geta og viðbragð Landhelgisgæslunnar vegna leitar og björgunar á svæðinu. Eykst einnig öryggi og langdrægi þyrlna þegar mögulegt er að staðsetja varðskip tímanlega við ytri mörk langdrægis þeirra.
20.desember 2012
Björguðu hesti og göngumanni - Óvænt verkefni var leyst snarlega í eftirlitsflugi þegar þyrluáhöfnin auga á hest sem var frosinn fastur í tjörn. Skömmu síðar fór þyrluáhöfnin og sótti mann sem slasaðist við Múlafell í Hvalfirði.