Landhelgisgæslan í viðbragðsstöðu
Föstudagur 28. desember 2012
Varðskip, þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar eru nú í viðbragðsstöðu vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum. Almannavarnir hafa í samráði við Veðurstofuna lýst yfir viðbúnaði á svæðinu og er Landhelgisgæslan til taks og bregst við samkvæmt nánari ákvörðun Almannavarna.
Varðskipin eru afar mikilvæg björgunartæki og dæmi eru um að þau hafi verið einu tækin til að komast á björgunarvettvang með mannskap, tæki og búnaði, t.d. í þeim tilfellum þegar aðeins er fært sjóleiðina.
Eins og komið hefur fram varar Veðurstofan við stormi víða um land í dag og er spáð norðanstormi eða -ofsaveðri á morgun, laugardag, hvassast V-til og stórhríð á norðanverðu landinu. Einnig er bent á að stórstreymt er á sunnudag, samfara óvenjulágum loftþrýstingi. Landhelgisgæslan biður umráðamenn skipa, báta og hafna að hafa varann á.