Annríki síðustu daga ársins - tækniaðstoð þyrlu á Vestfjörðum breyttist skyndilega í sjúkraflutning

  • GNA1_haust2012

Mánudagur 31. desember 2012

Mikið annríki hefur verið í starfsemi Landhelgisgæslunnar undanfarna daga. Starfsmenn flug- og varðskipadeildar voru í viðbragðsstöðu vegna veðurofsans á Vestfjörðum og einnig óskaði lögreglan á Selfossi eftir aðstoð kafara séraðgerða- og sprengjueyðingasviðs Landhelgisgæslunnar við rannsókn á köfunarslysi sem varð í Silfru á Þingvöllum. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra óskaði  á sunnudag eftir aðstoð þyrlu við að flytja tæknimenn eftir óveðrið sem gekk yfir landið.  Flogið var með viðgerðarmenn fjarskiptafyrirtækja að Holti í Önundarfirði, Ögri í Skötufirði og að Krossholti á Barðarströnd. Reynt var að koma mönnum upp á Bolfjall, en vegna veðurs tókst það ekki. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar á staðnum fór vindhraði á Bolafjalli upp í 66m/s á laugardag.  

Á gamlársdag var síðan óskað eftir að flogið yrði með starfsmenn Landsnets til að skoða skemmdir á háspennulínum á Vestfjörðum. Þegar þyrlan var á leið á staðinn barst beiðni um útkall þyrlu frá lækni á Ísafirði. Var um að ræða tvo sjúklinga sem þurftu að komast á sjúkrahús. Þar sem sjúkraflutningar eru forgangsmál var tækniverkefni frestað og viðgerðarmenn  settir úr þyrlunni í Stykkishólmi. Var síðan haldið tafarlaust í að sækja sjúklingana og síðan flogið til Reykjavíkur. Lenti þyrlan við Landspítalann í Fossvogi um kl. 15:15.

Mynd Gassi.