Rannsóknarleiðangri í Eldey frestað
Fimmtudagur 17. janúar 2013
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar gerði eftir hádegi í dag tilraun til að komast út í Eldey til að skoða torkennilegan hlut, sem gæti verið sprengja úr síðari heimsstyrjöldinni. Ætlunarverk þeirra tókst ekki þar sem kominn var fugl í eyjuna og veður ekki upp á hið besta. Munu þeir fylgjast með eyjunni og gerð verður önnur tilraun þegar tækifæri gefst, væntanlega í haust. Fyrsta verk sprengjusérfræðinga er að staðfesta hvort þarna sé sprengja og hvað hún sé stór. Er þá hægt að segja til um ráðstafanir sem verður gripið til og verður í ferlinu unnið náið með Umhverfisstofnun. Hægt er að fylgjast með lífi í eyjunni í gegnum vefmyndavél á slóðinni www.eldey.is milli kl. 12:00 og 16:00.
Eldey í gær. Eins og sést er krökkt af súlu í eyjunni.
Þessi torkennilegi hlutur fannst þegar vísindamenn og starfsmenn Umhverfisstofnunar fór um síðastliðna helgi út í Eldey að gera við vefmyndavél sem þar er. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með vísindamennina og sótti þá síðar um daginn. Erfitt er að lenda í eyjunni en hægt að tilla þyrlunni og síga niður.
Hér eru myndir frá leiðangri í Eldey árið 2008 þar sem flogið var með þyrlunni TF EIR sem var af gerðinni Dauphin og er mun minni en þyrlurnar sem nú eru í notkun hjá LHG.