Vel heppnað sjúkraflug flugvélar Landhelgisgæslunnar til Malmö

  • SjukraflugSV

Mánudagur 21. janúar 2013

Landhelgisgæslunni barst nú nýverið beiðni frá Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi þar sem óskað var eftir að flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF myndi annast flug með sjúkling frá Reykjavík til Malmö sem þurfti sérstakrar umönnunar við.  Fór TF SIF í loftið frá Reykjavík kl. 09:32 sl. mánudagsmorgun þann 14. janúar.  Í fluginu voru auk sjúklings, læknir, hjúkrunarfræðingur og tveir aðstandendur. Var flogið til Malmö og lent þar á flugvellinum kl. 14:49 en þar beið sjúkrabifreið sem flutti sjúklinginn á sjúkrahús. TF-SIF fór að nýju í loftið stuttu síðar eða kl. 16:29 og var lent í Reykjavík um kvöldið.

_MG_4240
Góð aðstaða er fyrir sjúkling og heilbrigðisstarfsfólk.

Flugvél Landhelgisgæslunnar er sérstaklega vel útbúin til sjúkraflutninga.  Í henni er mun betra rými en í öðrum sjúkraflugvélum og góð vinnuaðstaða til að sinna sjúklingum í flugi.  Þá er og unnt að flytja fleiri sjúklinga með góðu móti.  Rými til að athafna sig fyrir lækna og hjúkrunarfólk er nægt auk þess sem gott pláss og aðstaða er fyrir aðstandendur.  Þá er vélin einstaklega hljóðlát enda búin „Noice Cancelling“ kerfi.  Vélin hefur lengra flugþol en almennar sjúkraflugvélar eða alls um 9 klukkustundir og getur því farið í einum áfanga til flestra staða erlendis þar sem sjúklingar eru almennt fluttir til.  Í áhöfn TF-SIF eru ávallt fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, tveir flugmenn og tveir skipstjórnarmenn sem jafnframt eru menntaðir sjúkraflutningamenn og aðstoða þeir við umönnun sjúklinga og aðstandenda eftir atvikum.

_MG_4247
Hvíldaraðstaða flugvélarinnar.

Sjúkraflugið gekk í alla staði afar vel og lýstu heilbrigðisstarfsmenn sem höfðu umsjón með þessu sjúkraflugi yfir almennri ánægju með flugið og aðbúnað.  Að mati þeirra er hin góða aðstaða um borð í SIF til þess fallin að auka öryggi og möguleika á betri árangri við umönnun og læknisfræðilega meðferð sjúklinga.  Rýmið í vélinni gerir öllum sem að málum koma auðveldara um vik að sinna sjúklingi og bregðast við ef upp koma alvarleg atvik í flutningi.  Á þetta sér í lagi við um flutninga á mikið veikum sjúklingum sem þurfa gjörgæslumeðferð og aðhlynningu nánst samfellt allt flugið.  Mikill kostur er fyrir heilbrigðisstarfsfólk að geta staðið upprétt við þau verk sem sinna þarf.  Auk þess er það mikils um vert að öll samskipti við sjúklinga og aðstandendur um borð eru mun auðveldari en í öðrum sjúkraflugvélum sökum þess hve vélin er hljóðlát.  Vegna langdrægni vélarinnar er unnt að fara fram og til baka á einum degi og þannig skila heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum sem að fluginu koma heim samdægurs.  Sparar það verðmætan tíma heilbrigðisstarfsfólks sem og umtalsverða fjármuni og síðast en ekki síst eykur það öryggi sjúklinga.   

Meðfylgjandi eru myndir frá sjúkrafluginu til Svíþjóðar og af aðstöðu inni í flugvélinni.

SjukraflugSV
TF SIF á flugvellinum í Malmö.