Víðtækt eftirlit LHG með loðnumiðum

  • P1110059

Föstudagur 1. febrúar 2013

Landhelgisgæslan hefur að undanförnu sinnt víðtæku eftirliti á loðnumiðum með varðskipinu  Týr og flugvélinni TF-SIF. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur haft heildaryfirsýn yfir stöðuna, verið í reglulegu sambandi við skipin, móttekið frá þeim tilkynningar um afla og leiðbeint um ýmis atriði svo sem komutilkynningar til íslenskra hafna og læknisaðstoð.  

Á svæðinu hafa verið  íslensk, norsk og eitt grænlenskt skip. Samkvæmt upplýsingum frá varðskipinu Týr voru öll norsku loðnuskipin farin af miðunum í morgun en þau hafa verið 22 að veiðum þegar mest var. Veður hefur stundum hamlað eftirlitinu en skipunum er gert að koma við á fyrirfram tilgreindum eftirlitsstað á miðunum áður en þau halda heim. Um borð eru gögn er varða veiðarnar yfirfarin og athugað hvort rétt hefur verið staðið að öllu.

Á tímabilinu hefur varðskipið Týr vísað einu norsku loðnuskipi til hafnar vegna fiskveiðibrots. Brotið komst upp þegar varðskipsmenn fóru um borð í norska loðnuskipið Manon og leiddu mælingar þeirra í ljós að afli um borð virtist meiri en skipið hafði tilkynnt um að það hefði veitt innan íslensku efnahagslögsögunnar. Var þá skipinu vísað til hafnar á Eskifirði fyrir meintar ólöglegar veiðar . Þegar afli var vigtaður upp úr skipinu á Eskifirði reyndist skipið vera með tæplega 200 tonnum meira af loðnu í lestum sínum en tilkynnt var. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Eskifirði hefur málið ekki verið tekið fyrir. Einnig var skipið Seelvag Senior sem kært um síðustu helgi vegna vöntunar á tilkynningaskeytum en það hafði hætt veiðum og haldið inn til löndunar á Eskifirði án þess að tilkynna stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um það eins og ber að gera samkvæmt reglugerð.  Samkvæmt upplýsingum sem Landhelgisgæslan hefur  lauk því máli með dómsátt upp á 400 þúsund krónur. 

Í reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2012/2013 segir að norskum skipum er heimilt að veiða samtals 34.511 lestir í efnahagslögsögu Íslands og er þeim aðeins heimilt að stunda loðnuveiðar í efnahagslögsögu Íslands til 15. febrúar 2013 og norðan við 64°30´N. Samkvæmt bókhaldi Landhelgisgæslunnar hafa norsku skipin nú veitt 29.907 tonn