Þema 112 dagsins í ár er að hvetja fólk til að læra skyndihjálp

Mánudagur 11. febrúar 2013

112-dagurinn er haldinn um allt land í dag, 11. febrúar. Hann er einnig haldinn víða um Evrópu en 112 er samræmt neyðarnúmer í löndum Evrópusambandsins. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni er áhersla lögð á að hvetja fólk til að læra skyndihjálp og hika ekki við að veita fyrstu aðstoð á vettvangi slysa og veikinda.

Öllum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar býðst reglulega að sækja skyndihjálparnámskeið en Marvin Ingólfsson, stýrimaður, sprengjusérfræðingur, kafari og sjúkraflutningamaður með meiru hlaut fyrir þremur árum síðan réttindi til kennslu í skyndihjálp hjá Rauða Krossi Íslands.  og hefur hann annast námskeiðin. Á næstunni verða haldin grunnnámskeið  og endurmenntunarnámskeið fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem eru mismunandi samsett eftir störfum og deildum. Reynslan hefur svo sannarlega sýnt að námskeiðin skila árangri og eru nokkrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem hafa notað kunnáttu sína við skyndihjálp þegar komið hefur verið að vettvangi slyss eða einstaklingi sem þarf á fyrstu hjálp að halda. Sjá frétt um námskeið http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/nr/1492

MarThorarins

Niðurstöður könnunar Capacent Gallup sem unnin var í sl. viku í tilefni 112-dagsins sýna að þau sem hafa farið á námskeið í skyndihjálp treysta sér mun fremur en aðrir til að veita bráðveikum eða alvarlega slösuðum skyndihjálp. Það á sérstaklega við um þá sem hafa farið á námskeið á síðustu þremur árum. Í hópi þeirra sem farið hafa á námskeið á síðustu þremur árum segjast 85 prósent treysta sér til að aðstoða en aðeins þriðjungur þeirra sem aldrei hafa farið á námskeið. Könnunin sýnir einnig að nær fimmtungur hefur lent í að þurfa að veita lífsbjargandi skyndihjálp. Líkurnar á því að þurfa að beita skyndihjálp við erfiðar aðstæður eru því miklar.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

  • Langflestir, eða 75 prósent, segjast treysta sér til að veita bráðveikum eða alvarlega slösuðum skyndihjálp. Heldur fleiri (70 prósent) segjast treysta sér til að hjálpa fjölskyldumeðlimum, vinum, kunningja eða vinnufélaga en ókunnugum (61,6 prósent).
  • Karlar og fólk á aldrinum 35-44 ára segjast fremur en aðrir treysta sér til að veita lífsbjargandi skyndihjálp.
  • 82,7 prósent hafa farið á námskeið í skyndihjálp, þar af tæplega 31 prósent á síðustu þremur árum. Tæplega fimmtungur hefur aldrei sótt námskeið í skyndihjálp.
  • Rúmlega 70 prósent hafa þurft að veita öðrum almenna/einfalda skyndihjálp.
  • 18,7 prósent hafa þurft að veita bráðveikum eða einstaklingi með alvarlega áverka lífsbjargandi skyndihjálp. Í 8,4 prósent tilvika var um að ræða ókunnugan einstakling. Þeir sem hafa sótt námskeið í skyndihjálp eru miklu líklegri til að hafa veitt lífsbjargandi skyndihjálp.

Um var að ræða netkönnun sem gerð var 17.-28. janúar síðastliðinn. Notað var 1.450 manna úrtak 18 ára og eldri af öllu landinu. Svarhlutfall var 57,3 prósent.

Hér er slóð á skyndihjálparpróf Rauða krossins 

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Isavia, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og samstarfsaðilar um allt land.