Yfirgefið skemmtiferðaskip rekur hugsanlega í átt að Íslandi.
Útreikningar gera ráð fyrir að skipið komi inn í íslenska efnahagslögsögu 5. mars. Þá getur LHG gripið inn í samkvæmt lögum.
Þriðjudagur 19. febrúar 2013
Landhelgisgæslunni barst þann 5. febrúar síðastliðinn upplýsingar um að "Lyubov Orlova" 100 metra langt og 4000 tonna skemmtiferðaskip væri mannlaust á reki austur af Nýfundnalandi. Hugsanlega væri rek skipsins til norðausturs þ.e. í átt að Íslandi. Landhelgisgæslan fór m.a. í að kynna sér hvað kanadískir fjölmiðlar hefðu um málið að segja og kom þar fram að að skipið hefði slitnað aftan úr dráttarbát sem var að draga það í brotajárn frá St. Johns á Nýfundnalandi áleiðis til Dominíska lýðveldisins. Skipið var að reka í átt að olíuborpöllum undan strönd Nýfundnalands þegar brugðið var á það ráð að draga það frá borpöllunum og út á rúmsjó. Þar virðist það af einhverjum ókunnum orsökum hafa verið skilið eftir með ferilvöktunarbúnað í gangi svo hægt væri að fylgjast með reki þess. Þetta mun hafa átt sér stað undir lok janúar.
Landhelgisgæslan hafði samband við björgunarmiðstöðina í Halifax til að spyrjast nánar fyrir um staðsetningu skipsins og kom þá í ljós að staðsetningar hættu að berast frá ferilvöktunarbúnaðinum 4. febrúar en síðasta staðsetning "Lyubov Orlova" var um 300 sjómílur austur af Nýfundnalandi, norður af svokölluðum Flæmska Hatti. Björgunarmiðstöðin taldi að rek skipsins væri um 1-2 sjómílur á klst. til norðausturs. LHG var þar með ljóst að ef svo héldi áfram mundi skipið reka inn í leitar og björgunarsvæði Íslands og síðar íslensku efnahagslögsöguna á innan við mánuði. Þrátt fyrir frekari fyrirspurnir til björgunarmiðstöðvarinnar í Halifax fengust ekki frekari upplýsingar um skipið. Landhelgisgæslan hefur verið í samstarfi við írsku strandgæsluna í þeirri viðleitni að hafa upp á skipinu. Í því sambandi hefur verið notast við gervihnattamyndir en ein slík sem LHG barst frá írsku starndg. Gaf til kynna að skipið væri hugsanlega statt um 700 sjómílur suðvestur af Íslandi, ef svo er hefur það rekið um 400 sjómílur á 12 dögum. Þar sem sú staðsetning er byggð á gervihnattamyndum er ekki hægt að staðfesta að um sé að ræða "Lyubov Orlova". Landhelgisgæslan í samstarfi við írsku strandgæsluna mun fylgjast náið með framvindu mála en komið hefur fram í erlendum fjölmiðlum að eigandi skipsins áætlar að eftir því sem skipið rekur nær Evrópu þá fái hann aðstoð þarlendra dráttarskipafyrirtækja. Miðað við áætlaðan rekhraða "Lyubov Orlova" byggða á gervihnattamyndinni má eiga von á að skipið komi inn í íslenska efnahagslögsögu þann 5. mars en þá getur LHG gripið inn í samkvæmt lögum.
Gervihnattamyndirnar sem írska strandgæslan hefur sent Landhelgisgæslunni auk upplýsinga um áætlaða staðsetningu þess eru m.a. unnar í samvinnu við C-SIGMA og Guy Thomas með tæknilegri aðstoð ORBCOMM og e-GEOS.
Landhelgisgæslan vill hinsvegar ítreka það að eins og er er skipið hreinlega týnt þar til sjónræn staðfesting fæst á staðsetningu þess.
Myndir: Hafnaryfirvöld í St. Johns á Nýfundnalandi og www.marinedigital.co.kr -
Ýmsar fréttir varðandi málið.
The Telegram 2. febrúar
Ýmsar fréttir