Námskeið fyrir varðstjóra um samskipti við flugatvik

  • SRR

Miðvikudagur 20. febrúar 2013

Starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar - JRCC Ísland (Joint Rescue Coordination Centre) hafa að undanförnu setið námskeið hjá ISAVIA sem heitir OACC alerting JRCC sem fjallar um samskipti flugstjórnarmiðstöðvar í Reykjavík og björgunarmiðstöðvarinnar JRCC Ísland, þegar háski steðjar að í flugi. Á næstunni verða einnig haldin síþjálfunarnámskeið fyrir þá sem luku sama námskeiði á síðasta ári.  

Egill Þórðarson verkefnisstjóri NOTAM hjá ISAVIA hefur umsjón með námskeiðum þessum en hann starfaði áður sem loftskeytamaður á gæsluvélinni TF-SYN, var varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og björgunarmiðstöðinni MRCC Reykjavík (Maritime Rescue Coordination Centre). Námskeiðin eru uppbyggð að mestu leiti á þeirri reynslu sem safnast hefur í samstarfi flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík og MRCC Reykjavík / JRCC Ísland síðustu áratugi. Námskeiðin byggja annarsvegar á samstarfssamningi Isavia og JRCC Ísland og hinsvegar á samstarfssamningi JRCC Ísland og MRCC Tórshavn.

Í reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara sem tók gildi 5. október 2010 segir að Landhelgisgæslan fari með yfirstjórn leitar og björgunaraðgerða á leitar og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara. Landhelgisgæslan fer með stjórnun allra leitar- og björgunaraðgerða innan íslenskrar efnahagslögsögu og á ábyrgðarsvæði Íslands á alþjóðlegum hafsvæðum. Einnig aðstoðar Landhelgisgæslan yfirvöld á landi við leit og björgun sé þess óskað. Í kjölfar útgáfu reglugerðarinnar, 14. október 2010 var gerður samstarfssamningur við ISAVIA um samvinnu og verkaskiptingu vegna leitar og björgunar loftfara. ISAVIA sinnir viðbúnaðarþjónustu og þjálfar starfsmenn Landhelgisgæslunnar vegna flugþáttarins.

Kortið sýnir íslensku efnahagslögsöguna (fjólublátt svæði)  og leitar og björgunarsvæði Íslands (ljósblátt) vegna sjófarenda og loftfara.

Myndin var tekin við útskrift varðstjóra LHG sem tóku þátt í fyrra námskeiðinu

Namskeid_utskrift19022013
Jón Árni Árnason, varðstjóri,  Egill Þórðarson, ISAVIA, Sigurður Óskar Óskarsson og Guðmundur Rúnar Jónsson, varðstjórar í stjórnstöð LHG.