Tvö þyrluútköll í kvöld

  • Nætursjónaukar

Laugardagur 2. mars 2013

Tvö útköll bárust á þyrlu Landhelgisgæslunnar í kvöld. Fyrra útkallið  barst kl. 20:23 og var að beiðni læknis á Hvolsvelli eftir að jeppi valt á Þingskálavegi við Svínhaga.  TF-LIF fór í loftið kl. 20:44 og kom á vettvang kl. 21:12. Einn maður var fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Þegar þyrlan var við það að lenda við Landspítalann kl. 21:59 barst að nýju beiðni um útkall vegna bifreiðar sem festist í Sandavatni suður af Langjökli. Tveir voru komnir á þak bifreiðarinnar  og óskuðu eftir aðstoð. Bifreiðin var vel skorðuð og ekki talin hætt á veltu. 

Eftir að þyrlan hafði tekið viðbótareldsneyti var farið að nýju í loftið um 22:25. Þegar á vettvang kom var ekki hægt að hífa um borð í þyrluna vegna nálægðar háspennulína og lenti því þyrlan og þyrluáhöfnin aðstoðaði af landi.  Var fólkinu bjargað af þaki bifreiðarinnar og lenti þyrlan við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 00:25 og flutti sjúkrabifreið fólkið á sjúkrahús til athugunar.