Þyrla LHG tók þátt í björgunaraðgerðum við Botnsúlur

  • GNA1_haust2012

Föstudagur 8. mars 2013

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF GNA var kölluð út upp úr klukkan tvö í dag eftir að tilkynning barst um mann sem slasaðist við Botnsúlur í Hvalfirði. Var þá þyrlan í æfingu á ytri höfn Reykjavíkur og hélt strax inn á Reykjavíkurflugvöll til að taka eldsneyti. Var farið að nýju í loftið kl. 14:29 og fóru undanfarar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar með þyrlunni þar sem veður gerði að öllum líkindum þyrlu erfitt fyrir. Sú varð raunin, en vegna ókyrrðar var ekki hægt að komast að manninum, þar sem hann var hlé megin í vestari Botnsúlu inni í svo kallaðari Skál.

Fjallahópur slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var þá á leiðinni á staðinn auk sérsveitar RLS sem voru við æfingar á svæðinu auk björgunarsveita. Þyrlan kom á vettvang um klukkan þrjú og voru þá undanfarar settir úr og gengu þeir áleiðis að hinum slasaða en ekki var hægt að lenda við slysstað vegna ókyrrðar í lofti. Þar sem mjög hvasst var á staðnum og aðstæður erfiðar var ákveðið að þyrlan færi að sækja fleiri björgunarsveitarmenn í Svartagil á Þingvöllum og Múlakot . Alls voru fluttir 18 björgunarsveitarmenn með þyrlunni og flogið með þá eins nálægt og mögulegt var en þaðan gengu þeir að hinum slasaða og aðstoðuðu við flutning hans. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur til eldsneytistöku. Hélt TF GNA aftur á staðinn kl. 17:18 og lenti eins ofarlega í hlíð Botnsúlu eins og hægt var þar sem björgunarsveitarmenn, sjúkraflutningamenn SHS og sérsveitarmenn RLS komu með sjúkling. Fóru læknir og stýrimaður yfir í sjúkrabíl þar sem sjúklingur var undirbúinn fyrir flutning og var hann síðan fluttur um borð í þyrluna sem fór í loftið kl. 18:11 og var lent við Landspítala í Fossvogi kl. 18:28.