Gæsluflug TF SIF í dag - Staðan innan hafsvæðisins

  • _MG_3695

Mánudagur 12. mars 2013

TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar fór í dag í löggæslu- og eftirlitsflug um
suðvestur - suðausturmið og djúp. Haft var samband við skip á svæðinu og skipst á upplýsingum. Eitt skip var ekki með kveikt á ferilvöktunarbúnaði og var brýnt fyrir þeim að láta lagfæra hann án tafar. Einnig var gerð athugasemd við togskip sem voru að veiðum innan bannsvæðis, nærri Farice/Danice fjarskiptastrengjunum suður af Surtsey. Fóru skipstjórar samstundis að fyrirmælum stýrimanna TF-SIF, beygðu frá strengjunum og út af svæðinu.

11032013_radarcov
Radar þekja (coverage) úr 18000 fetum í fluginu

Viðvarandi brælur hafa að undanförnu verið á miðunum umhverfis landið og að jafnaði 100-200 skip á sjó. Í dag fór hins vegar fjöldi báta á sjó upp í 440 og þar sem veðurspáin er góð næstu daga má gera ráð fyrir aukinni sjósókn.  Flotinn hefur verið nokkuð dreifður en mikið af minni bátum á grunnslóð. Aukinni sjósókn minni báta síðla vetrar fylgir nokkur fjöldi athugasemda vegna lögskráninga og vöntunar á haffærisskírteinum og hafði Landhelgisgæslan afskipti af yfir 25 skipum og bátum í dag vegna þessa.

11032013_storhvalavada
Stórhvala vaða á SA miðum.

Loðnuflotinn er staðsettur út af Breiðfirði en farið er að draga úr veiðunum. Eitt grænlenskt loðnuskip er á miðunum og þá er einn norskur og einn færeyskur línubátur að veiðum á Íslandsmiðum. Þrjár skyndilokanir eru í gildi, ein á Eyjarfirði, ein á Jökultungu og ein undir Grænuhlíð.

Talsvert annríki hefur verið hjá stjórnstöð og flugdeild að undanförnu. Mikið hefur verið um útköll inn til landsins og óvenju mikið um útköll þar sem er um að ræða ferðamenn sem ekki haga ferðum sínum eftir veðri og aðstæðum. Vill Landhelgisgæslan brýna fyrir fólki að kynna sér veðurspár og taka ekki óþarfa áhættu, m.a. með því að vera ein og/eða vanbúin á svæðum sem geta verið erfið yfirferðar.