Gagnlegar æfingar Landhelgisgæslunnar með tundurduflaslæðurum

  • DSC_4380

Þriðjudagur 21. maí 2013

Floti tundurduflaslæðara Atlantshafsbandalagsins sem hefur verið í heimsókn hér við land lét úr höfn í gærkvöldi og sigla skipin nú til heimahafna sinna í Evrópu.

Skipin fimm ORP Czernicki frá Póllandi, BNS Bellis frá Belgíu, FGS Weilheim frá Þýskalandi, HNOMS Hinnøy frá Noregi og HNLMS Urk frá Hollandi voru við æfingar með Landhelgisgæslunni í sl. viku auk þess sem æft var með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Skipin voru opin til sýnis fyrir almenning og var samstarfsaðilum boðið að koma um borð og kynnast starfseminni nánar. Helstu verkefni skipanna flokkast undir mannúðaraðstoð: leit að tundurduflum og sprengjum í sjó, eyðingu hluta sem fólki getur stafað hætta af,  slökkvistörf og sjúkraflutninga á hafinu.  Við lok æfingarinnar var farið yfir helstu niðurstöður og árangur heimsóknarinnar. Allir aðilar voru sammála um mikilvægi og gagnsemi æfinganna. Vitað er að þúsundir tundurdufla frá seinni heimstyrjöldinni finnast innan íslenska hafsvæðisins og mikið verk er fyrir höndum við eyðingu þeirra.

Við rannsóknir og leit tundurduflaslæðaranna fundust tundurdufl í Hvalfirði frá seinni heimstyrjöldinni, sem eytt var neðansjávar í samstarfi við sprengjusérfræðinga og kafara Landhelgisgæslunnar. Einnig fundust skipsflök sem vonandi verður mögulegt að rannsaka nánar. Allir aðilar fengu tækifæri til að miðla af þekkingu sinni og er strax farið að huga að frekara samstarfi og upplýsingamiðlun. Eins og með allar æfingar komu upp þættir sem þarf að lagfæra og verður tekið tillit til þeirra í áætlunum næstu æfinga Landhelgisgæslunnar með flotanum. Afar mikilvægt er fyrir Landhelgisgæsluna að eiga í góðu samstarfi við bandalagsþjóðir NATO/Atlantshafsbandalagsins. Sprengjusérfræðingar, kafarar og starfsmenn lofthelgis- og öryggismálasviðs LHG sækja reglulega þjálfun með kollegum sínum innan NATO og eru fjöldamörg tækifæri sem hægt væri að nýta til að auka enn frekar getu LHG á sviði leitar-, björgunar, eftirlits- og löggæslu innan hafsvæðisins.

Myndir Jón Kr. Friðgeirsson, bryti

DSC_4286
ORP Czernicki frá Póllandi

DSC_4312
Belgíska skipið BNS BELLIS

DSC_4341
Þýska skipið FGS WEILHEIM

DSC_4367
Hollenska skipið HNLMS URK

DSC_4268

Hinnoy Noregur
HNOMS Hinnøy frá Noregi. Mynd http://www.shipspotting.com