TF-LIF aðstoðar svifdrekaflugmann í vandræðum

  • TF-LIF_8625_1200

Föstudagur 21. júní 2013

Þegar TF-LIF þyrla Landhelgisgæslunnar var í dag í venjubundnu æfingaflugi barst þeim fyrirspurn frá aðstoðarmanni svifdrekaflugmanns sem hafði fyrir óheppni lent á eyju í Þjórsá. Hafði viðkomandi heyrt í þyrlunni á svæðinu og hafði samband á flugradíó til að athuga hvort möguleiki væri á aðstoð gæslunnar. Ekkert amaði að svifdrekaflugmanninum en hjálp við að komast í land yrði vel þegin.

Þar sem þyrlan var á svæðinu var ákveðið að fara til aðstoðar. Sóttir voru menn sem vissu um staðsetningu svifdrekaflugmannsins og var viðkomandi síðan sóttur, þyrlunni tyllt niður á eyjunni og félagarnir síðan settir út við Búrfell þar sem lagt var upp í flugið. Að sögn þyrluáhafnar tók aðstoðin skamma stund og gekk allt vel.