Neyðarblysi stolið úr björgunarbáti

  • Thyrla_stjornklefi

Fimmtudagur 22. ágúst 2013

Landhelgisgæslunni barst um kl. 22:00 í gærkvöldi tilkynning um neyðarblys sem sást vestur af Eiðisskeri fyrir utan Seltjarnarnes. Léttabátur frá einu varðskipa Landhelgisgæslunnar og þyrla Landhelgisgæslunnar voru send til leitar auk þess sem björgunarsveitin Ársæll var kölluð út og var leitað léttabáti þeirra Þórði Kristjánssyni.

Um svipað leyti var haft samband við Neyðarlínu og látið vita af björgunarbáti sem lá uppblásinn við hlið gamals dráttarbáts í slippnum í Reykjavík. Tímasetningar pössuðu saman og líkur eru taldar á því að neyðarblysin hafi verið tekin ófrjálsri hendi úr bátnum og skotið á loft frá landi.

Landhelgisgæslan lítur málið alvarlegum augum. Ávallt er tekið mark á tilkynningum um neyðarblys því þau eru notuð til að láta vita af sæfarendum í háska.  Lögreglan rannsakar málið.  Tugir ára eru síðan hætt var að setja verkja-og deyfilyf í sjúkrakassa björgunarbáta vegna innbrota. Þeir sem leita eftir slíkum efnum í bátunum grípa því í tómt.